Katrín vildi ræða fleira

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna. mbl.is/Hari

Fundur þeirra Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hófst skömmu eftir klukkan sjö. Færi gafst á því fyrir íslenska fjölmiðlamenn að ljósmynda þau fyrir fundinn í stutta stund.

Bæði fluttu þau stutta tölu fyrir fjölmiðla en Pence hélt uppteknum hætti frá því í dag og lagði áherslu á efnahagsleg og viðskiptaleg tengsl ríkjanna auk varnarmála í Norður-Atlantshafi. 

„Við viljum ólm finna leiðir til að byggja áfram upp efnahagsleg tengsl milli landanna og ég veit að samtal í þá veru hófst á þessu ári. Ég ræddi þetta við marga af forkólfum atvinnulífsins hér á landi fyrr í dag,“ sagði hann. Þá sagðist hann vilja byggja upp langtímasamband í tengslum við sameiginlegt öryggi ríkjanna. 

„Við erum þakklát fyrir ykkar framlag til þess að styðja við bandaríska hermenn í álfunni og styðja við verkefni okkar um að halda uppi öryggi í álfunni,“ sagði hann. Pence nefndi einnig Kínverja og umsvif þeirra í Norður-Evrópu undanfarið. „Norðurheimskautssvæðið er mikilvægara en nokkru sinni fyrr,“ sagði hann.

Vildi beina sjónum að fleiri hlutum

Katrín sagðist myndu vilja ræða fleiri hluti en viðskipti og varnarmál og kvaðst einkum myndu leggja áherslu á jafnréttismál og nefndi einnig loftslagsmálin. 

„Við eigum langa sögu, ekki bara á sviði varnarmála eða á sviði viðskipta heldur á menningarlegum grunni,“ sagði hún og vísaði til þess fjölda Íslendinga sem fluttu vestur um haf á 20. öldinni, Vestur-Íslendinga. „Við ætlum að tala um stjórnmál líka, aðeins um norðurheimskautssvæðið og stærstu ógnina við það, loftslagskrísuna sem mun hafa áhrif á heimskautasvæðið meira en nokkurs staðar annars staðar,“ sagði Katrín. 

„Við erum mjög áhyggjufull af þessum sökum eins og þú veist, herra varaforseti,“ sagði hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert