„Við bíðum eftir að veðurglugginn opnist,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, annar skipuleggjenda Ermarsundssundhópsins Marglytta. Hópurinn er staddur í Dover á Englandi og bíður þess að geta lagst til sunds.
Tímarammi Marglytta til sundsins opnaðist í dag en að sögn Grétu leyfir veður ekki að þær syndi af stað í dag. „Við erum í sambandi við skipstjórann og þeir fylgjast með. Það er verið að horfa á vind, ölduhæð, strauma og flóð og fylgst með frá degi til dags.“
Morgundagurinn lítur heldur ekki vel út til sunds en nægur tími er til stefnu þar sem Marglyttur eiga fyrsta sundrétt til 10. september.
„Þær eru duglegar að fara í sjóinn að æfa sig og eru tilbúnar um leið og kallið kemur,“ segir Gréta að lokum.
Öll áheit sem safnast vegna sundsins renna beint til umhverfissamtakanna Bláa hersins.
Í sundhópnum eru Sigrún Þ. Geirsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, Birna Bragadóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir, Sigurlaug María Jónsdóttir og Brynhildur Ólafsdóttir og skipuleggjendur eru Soffía Sigurgeirsdóttir og Gréta Ingþórsdóttir. Landsmenn geta stutt við Marglyttur í AUR-appinu í síma 788-9966 eða lagt inn á reikning 0537-14-640972, kt. 250766-5219.