Metskráning er í utanvegahlaupið Hengil Ultra sem haldið verður í Hveragerði nú um helgina. Nálgast fjöldi keppenda nú 400 og koma þeir frá 18 þjóðlöndum í þremur heimsálfum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum.
Auk Íslendinga koma keppendur að þessu sinni frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Belgíu, Hong Kong, Póllandi, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Svíþjóð, Litháen, Hollandi, Slóveníu, Finnlandi, Noregi, Rúmeníu og Slóvakíu.
Hengill Ultra er lengsta utanvegahlaup á Íslandi og er boðið upp á sex mismunandi keppnisleiðir og möguleika. 100 km, 50 km, 25 km, 10 km og svo 5 km, en síðan er boðið upp á fjórum sinnum 25 km boðhlaup sem nýjung í mótinu í ár.
Hundrað kílómetra hlaupararnir verða ræstir klukkan 20:00 á föstudagskvöldið fyrir framan Skyrgerðina í Hveragerði. Þeir hlauparar hlaupa svo í gegnum nóttina og verða að koma í mark milli kl. 14:00 og 18:00 daginn eftir. 50 km hlaupararnir verða ræstir út klukkan 8:00 á laugardagsmorgun, þeir sem taka 25 km vegalengdina kl. 13:00 og 5 og 10 km hlaupararnir kl. 14:00.