Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ávarpaði fjölmiðla og svaraði spurningum að loknu fundahaldi í Höfða síðdegis í dag áður en hann hélt áleiðis til fundar við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Sem fyrr lagði hann mikla áherslu á samvinnu þjóðanna í varnar- og öryggismálum. Hann ræddi einnig Brexit en eftir Íslandsdvölina heldur hann til Bretlands þar sem hann mun ræða við Boris Johnson, forsætisráðherra Breta.
Í máli hans kom einnig fram að hann hafi hvatt Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra til þess að hafna kínverska fjarskiptarisanum Huawei. Hann sagði það ánægjulegt að Íslendingar hefðu hafnað tilboði Kínverja um að taka þátt í fjárfestingaáætlun þarlendra stjórnvalda „Belti og braut“.
Ekki hefur áður komið fram opinberlega að stjórnvöld hafi hafnað tilboði Kínverja.