„Sárvantar úttekt á samskiptum Íslands og Kína“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fyrir utan Höfða eftir fund sinn …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fyrir utan Höfða eftir fund sinn með íslenskum leiðtogum. mbl.is/​Hari

„Það var athyglisvert sem kom fram í máli forsætisráðherra, ef ég skil þetta rétt, að þetta mál hafi ekki verið tekið til ítarlegrar skoðunar innan stjórnkerfisins,“ segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur spurður um viðbrögð forsætisráðherra og utanríkisráðherra um ummæli Mikes Pence varaforseta Bandaríkjanna fyrr í dag í Höfða. 

Þar kom fram að honum þætti ánægju­legt að Íslend­ing­ar hefðu hafnað til­boði Kín­verja um að taka þátt í fjár­fest­inga­áætl­un þarlendra stjórn­valda Belti og brautEkki hef­ur áður komið fram op­in­ber­lega að íslensk stjórn­völd hafi hafnað til­boði Kín­verja.

Baldur sagði einnig viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra athyglisverð. Guðlaugur greindi frá því að núverandi samningar milli Íslands og Kína væru fullnægjandi og það ætti að byrja að hrinda þeim að fullu í framkvæmd áður en rædd yrði samvinna á öðrum sviðum. „Í þessu virðist birtast afstaða ríkisstjórnarinnar að það eigi að vinna á grundvelli núverandi samninga við kínversk stjórnvöld og hrinda þeim í framkvæmd áður en farið sé að skoða þátttöku í þessu umfangsmikla verkefni Belti og braut,“ segir hann.  

Segir Kínverja ráða för

„Það sárvantar úttekt á samskiptum Íslands og Kína. Það er mikilvægt að það liggi fyrir greinargott yfirlit yfir pólitísk, efnahagsleg, vísindaleg, mennta- og menningarleg samskipti landanna áður en ákvarðanir eru teknar um frekari samvinnu,“ segir Baldur. 

Hann hefur rekið sig á að upplýsingar skortir um þessi samskipti í stjórnkerfinu þegar spurst er fyrir um þau. „Kaupin á eyrinni, milli landanna, hafa gengið fyrir sig með þeim hætti að þegar kínversk stjórnvöld koma með tillögu um samvinnu við íslenska aðila er tækifærið gripið og samvinnu komið á,“ segir hann og tekur fram að það þurfi ekkert að vera athugavert við þetta. „Hins vegar er vandinn sá að hvorki íslensk stjórnvöld né almenningur, svo ég viti, vita umfang þessara samskipta né hvað felst í þeim.“

Af því sögðu telur hann brýnt að stjórnvöld geri ítarlega greiningu og úttekt á þessum samskiptum til að meta hvert við viljum fara með samskiptum landanna. „Þá geta íslensk stjórnvöld átt frumkvæði að því hvernig þau vilja hafa samskiptin. Ekki grípa hvert einasta epli sem fellur af eikinni,“ segir hann. Slík úttekt gerði stjórnvöldum kleift að forgangsraða málum sem þau vilja leggja áherslu á. „Við höfum ekkert verið að forgangsraða. Að mínu mati hafa kínversk stjórnvöld ráðið för um hvert samskiptin stefna,“ segir hann. 

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Margir velta fyrir sér hvert aukin samskipti íslenskra og kínverskra stjórnvalda leiða, að mati Baldurs. Erindrekar erlendra ríkja hér á landi spyrja einnig þessara spurninga. „Þeir virðast hafa áhyggjur af umfangsmiklum samskiptum kínverskra stjórnvalda við þau íslensku og starfsemi þeirra almennt hér á landi. En enginn virðist geta svarað þeirri spurningu því yfirlitið er ekki til,“ segir hann. Hann ítrekar að ekkert þurfi að vera varhugavert eða óeðlilegt í þessum samskiptum. „En hvort þessi samskipti séu góð fyrir íslenska hagsmuni þurfum við hreinlega að meta.“ 

Ummæli Pence um afstöðu Íslands til fjár­fest­inga­áætl­unar Kína, Belti og braut, komu Baldri ekki á óvart. „Bandaríkin hafa haft allt á hornum sér gagnvart auknum samskiptum vinaríkja sinna við Kína,“ segir hann. 

Spurður um hernaðarleg umsvif Bandaríkjanna hér á landi segir Baldur augljóst að þeir vilji auka reglulega viðveru sína hér á landi. Koma Pence núna og Mikes Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr á árinu undirstrikar það. „Ísland skiptir aftur orðið máli hernaðarlega að mati bandarískra stjórnvalda. Bandaríkin vilja sporna gegn frekari umsvifum kínverskra stjórnvalda á norðurslóðum. Þessar heimsóknir hafa stórpólitíska þýðingu hvað þessi mál varðar sem við megum ekki vanmeta.“

Skiptir meiru hvað stjórnmálamenn segja en mótmælin sem slík

„Það skiptir mestu máli hvað stjórnmálamenn sögðu við hann um það sem mótmælendur voru að reyna að koma á framfæri,“ segir hann spurður út í mótmæli fólks gegn komu hans. Mótmælendur töluðu meðal annars fyrir réttindum samkynhneigðra, auknu kvenfrelsi og friði.  

„Ég gat ekki séð nokkurs staðar að samkynhneigðir einstaklingar hefðu tekið á móti honum. Ég saknaði þess,“ segir hann. Hann nefnir sem dæmi að þegar Pence heimsótti Írland hafi írski forsætisráðherrann tekið á móti honum með eiginmanni sínum. Þeir eru giftir. „Þannig móttökur skipta meira máli. Það er mikilvægt að þessir hópar, samkynhneigðir, eigi fulltrúa í æðstu stöðum. Því miður sá ég það ekki í Reykjavík í dag þótt það gæti hafa farið fram hjá mér,“ segir hann.

Í þessu samhengi bendir hann á að það skipti máli fyrir réttindi kvenna að kona sé forsætisráðherra og að hún hafi tekið á móti honum. „Pence hefur sýnt fjandsamlegt viðhorf í garð kvenna og til réttinda þeirra.“

Athygli vakti að El­iza Reid, for­setafrú Íslands, tók á móti Pence í hvítri buxna­dragt. Hvíti lit­ur­inn á sér nefni­lega sögu sem lit­ur vald­efl­ing­ar kvenna allt frá tím­um súf­fra­gett­anna og nú síðast hafa þing­kon­ur banda­ríska Demó­krata­flokks­ins skartað hvítu á völd­um stund­um í þing­inu. Hún var einnig með regn­boga­litt arm­band líkt og eiginmaður hennar Guðni Th. Jóhannesson.

„Svo virðist sem þau séu að senda skilaboð um mikilvægi réttindi kvenna og samkynhneigðra,“ segir Baldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka