„Þetta er mjög góður draugur“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í Höfða í dag. mbl.is/​Hari

Anna Karen Kristinsdóttir, staðarhaldari í Höfða, fór með Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna og Dag B. Eggertsson borgarstjóra í skoðunarferð um húsið sögufræga. Varaforsetanum var meðal annars sagt frá draugnum í Höfða.

„Þetta er mjög góður draugur,“ sagði borgarstjóri við það tækifæri. Borgarstjóri sagðist hafa boðið fram Höfða til þessa fundar vegna þess að honum þætti það góður staður fyrir viðræður sem leiddu til friðar. 

Farið var með Dag og Pence í herbergið þar sem Ronald Reag­an og Mik­haíl Gor­bat­sjev hittust á leiðtoga­fund­in­um í Höfða 1986. Varaforsetinn skrifaði í gestabókina og fékk að sjá síðuna þar sem Reagan ritaði nafn sitt fyrir 33 árum.

Pence þótti mikið til alls þessa koma og sagðist auðmjúkur yfir að fá að funda í jafn sögufrægu húsi og Höfða. 

Anna Karen Kristinsdóttir, staðahaldari í Höfða, Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, …
Anna Karen Kristinsdóttir, staðahaldari í Höfða, Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í Höfða í dag. mbl.is/​Hari

Varaforsetinn gaf sér góðan tíma til að skrifa nafn sitt og nokkur þakkarorð í gestabókina þegar hann yfirgaf Höfða en hann tók heila síðu bókarinnar. Að því loknu þakkaði hann fyrir góðar móttökur.

Fjölmiðlafólk spurði hvort Pence vildi tjá sig eitthvað áður en hann yfirgæfi Höfða og hann flutti stutt þakkarávarp.

Fjölmiðlafólk reyndi þá að spyrja hann frekar út í áhuga Rússa á norðurslóðum en þá þótti aðstoðarfólki varaforsetans nóg komið og kvaddi.

mbl.is/​Hari
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Pence var ánægður með komuna í Höfða.
Pence var ánægður með komuna í Höfða. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka