Miklar umferðartafir eru á Miklubraut núna á fimmta tímanum. Ástæðan er sú að lokað er fyrir alla umferð inn á Reykjanesbrautina í vesturátt í um fimm mínútur áður en varaforseti Bandaríkjanna og fylgdarlið hans aka brautina. Lokunin stendur einnig í um fimm mínútur eftir að fylgdin verður komin á brautina.
Þegar bílalestin verður komin vel áleiðis verður umferð hleypt aftur á brautina í vesturátt. Mike Pence er á leið frá Höfða á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Þar mun hann taka þátt í fundi um öryggismál á Norður-Atlantshafi.
Klukkan 18:45 er gert ráð fyrir fundi Pence með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Klukkan 19:40 munu Pence-hjónin yfirgefa Ísland og halda til Bretlands.