Fullfærir í samskiptum við Kínverja

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, í Höfða í gær.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, í Höfða í gær. mbl.is/​Hari

„Það er augljóst að Ísland skipar núna mun mikilvægari sess í viðhorfi Bandaríkjamanna til varna á norðurslóðum en raunin var fyrir nokkrum árum og heimsókn Pence er fyrst og fremst til marks um það,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is, en Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Ísland í gær og ræddi við íslenska ráðamenn.

„Það er ánægjulegt að viðskiptamálin hafi einnig verið rædd en það er hins vegar algert aukaatriði í huga Bandaríkjamanna. Hefði svo verið þá hefði væntanlega viðskiptaráðherra Bandaríkjanna frekar komið til landsins en utanríkisráðherra. Það er engu að síður mjög jákvætt að þau mál hafi verið rædd. Það er hins vegar augljóst að meginmarkmið Pence var að sýna að þeir líta á Ísland sem mikilvægan þátt í varnarkerfi NATO.“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Bragi segir ljóst að ekki hafi sést eins mikil hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli í mörg ár og mikil uppbygging eigi sér þar stað. Inntur eftir viðbrögðum við áhyggjum Pence af umsvifum Kínverja og Rússa á norðurslóðum segir hann: „Það eru svo sem ekki nýjar fréttir. Bandaríkjamenn hafa alltaf áhyggjur af Rússum og Kínverjum. En ég held að Íslendingar séu nú fullfærir um að hafa þau samskipti í fullkomlega eðlilegum farvegi.“

Þau samskipti snúist aðallega um viðskipti en ekki öryggis- og varnarmál. „Við viljum að sjálfsögðu eiga í viðskiptum og samskiptum við sem flestar þjóðir og Rússar og Kínverjar eru ekkert undanskildir í þeim efnum. En auðvitað verðum við að velta fyrir okkur þróun heimsmálanna og hvað vaki fyrir þessum risum. Hvort sem það eru vesturveldin eða í austrinu. En vitanlega hljótum við að hlusta eftir áhyggjum bandamanna okkar hverjar sem þær eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert