Funda með Katrínu vegna þjóðaröryggisstefnu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mun óska eftir því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mæti fyrir fund utanríkismálanefndar alþingis til að ræða heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi sent tvíræð skilaboð í aðdraganda fundar, það ógni hagsmunum Íslands og því sé ástæða til að forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður þjóðaröryggisráðs, skýri málið.

Þorgerður segir ljóst að koma Pence hafi vafist fyrir forsætisráðherra. „Það upplifðu allir þennan vandræðagang um hvernig ætti að nálgast þennan dygga bandamann, en greinilega var ekki mikill vilji [hjá forsætisráðherra] til að hitta Pence,“ segir hún.

Forsætisráðherra fundaði með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Keflavík.
Forsætisráðherra fundaði með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Keflavík. mbl.is/​Hari

Í ávarpi Mikes Pence að fundi loknum vék varaforsetinn að Belti og braut (e. Belt and Road Initiative), gríðarstóru innviðauppbyggingarverkefni Kínverja sem stendur öllum ríkjum til boða, á forsendum Kínverja. Sagði hann að sér þætti ánægju­legt að Íslend­ing­ar hefðu hafnað til­boði Kín­verja um að taka þátt í umræddu verkefni. Ekki hefur verið greint frá því opinberlega að Íslendingar hafi nokkurn tímann hafnað slíku boði.

„Ég tel mikilvægt að fá það á hreint hvaða umræða hefur farið fram innan ríkisstjórnarinnar um Belti og braut,“ segir Þorgerður. Ekki er þó svo að skilja að henni lítist á verkefnið; hún segir varhugavert að blanda saman efnahagsmálum og öryggismálum.

Fjölþjóðasamningar gagnast okkur betur

Í ávarpi sínu í gær sagðist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vilja kanna nánar þann möguleika að Íslendingar og Bandaríkjamenn gerðu með sér fríverslunarsamning. Slíkur samningur hefur verið í bígerð milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, nefndur TTIP, um nokkurt skeið, en Donald Trump Bandaríkjaforseti sleit viðræðum síðan formlega í fyrra. Höfðu þær þó í raun verið frosnar í nokkur ár vegna deilna viðsemjenda um gæðastaðla og neytendavernd, en Evrópuríkin voru ekki tilbúin að slá af þeim kröfum sem gerðar eru til varnings sem þar er seldur.

Spurð hvort hún telji fýsilegt fyrir Ísland að ná slíkum fríverslunarsamningi í ljósi reynslu Evrópusambandsins segir Þorgerður það trú sína að fjölþjóðasamningar gagnist Íslendingum betur en tvíhliða. Samningsstaða Íslands gagnvart Bandaríkjunum sé mun verri en ríkjabandalags á borð við ESB. Má því skilja af orðum hennar að hún telji ekki líklegt að Íslendingum byðust betri kjör en ESB.

„Það er hins vegar engin spurning að það er mikilvægt að halda sterku og góðu efnahagssamstarfi við Bandaríkjamenn, sem eru gamall bandamaður til áratuga,“ segir Þorgerður en bætir þó við að það skjóti skökku við að markmið núverandi stjórnvalda þar í landi sé að grafa undan fjölþjóðasamvinnu, sem Bandaríkin hafi lengst af verið í fararbroddi fyrir. „Það eru spennandi tímar fram undan,“ klykkir hún út með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert