Funda með Katrínu vegna þjóðaröryggisstefnu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, mun óska eft­ir því að Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra mæti fyr­ir fund ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is til að ræða heim­sókn Mikes Pence, vara­for­seta Banda­ríkj­anna. Ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafi sent tví­ræð skila­boð í aðdrag­anda fund­ar, það ógni hags­mun­um Íslands og því sé ástæða til að for­sæt­is­ráðherra, sem jafn­framt er formaður þjóðarör­ygg­is­ráðs, skýri málið.

Þor­gerður seg­ir ljóst að koma Pence hafi vaf­ist fyr­ir for­sæt­is­ráðherra. „Það upp­lifðu all­ir þenn­an vand­ræðagang um hvernig ætti að nálg­ast þenn­an dygga banda­mann, en greini­lega var ekki mik­ill vilji [hjá for­sæt­is­ráðherra] til að hitta Pence,“ seg­ir hún.

Forsætisráðherra fundaði með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Keflavík.
For­sæt­is­ráðherra fundaði með Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkj­anna, í Kefla­vík. mbl.is/​​Hari

Í ávarpi Mikes Pence að fundi lokn­um vék vara­for­set­inn að Belti og braut (e. Belt and Road Initiati­ve), gríðar­stóru innviðaupp­bygg­ing­ar­verk­efni Kín­verja sem stend­ur öll­um ríkj­um til boða, á for­send­um Kín­verja. Sagði hann að sér þætti ánægju­legt að Íslend­ing­ar hefðu hafnað til­boði Kín­verja um að taka þátt í um­ræddu verk­efni. Ekki hef­ur verið greint frá því op­in­ber­lega að Íslend­ing­ar hafi nokk­urn tím­ann hafnað slíku boði.

„Ég tel mik­il­vægt að fá það á hreint hvaða umræða hef­ur farið fram inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar um Belti og braut,“ seg­ir Þor­gerður. Ekki er þó svo að skilja að henni lít­ist á verk­efnið; hún seg­ir var­huga­vert að blanda sam­an efna­hags­mál­um og ör­ygg­is­mál­um.

Fjölþjóðasamn­ing­ar gagn­ast okk­ur bet­ur

Í ávarpi sínu í gær sagðist Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra vilja kanna nán­ar þann mögu­leika að Íslend­ing­ar og Banda­ríkja­menn gerðu með sér fríversl­un­ar­samn­ing. Slík­ur samn­ing­ur hef­ur verið í bíg­erð milli Evr­ópu­sam­bands­ins og Banda­ríkj­anna, nefnd­ur TTIP, um nokk­urt skeið, en Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti sleit viðræðum síðan form­lega í fyrra. Höfðu þær þó í raun verið frosn­ar í nokk­ur ár vegna deilna viðsemj­enda um gæðastaðla og neyt­enda­vernd, en Evr­ópu­rík­in voru ekki til­bú­in að slá af þeim kröf­um sem gerðar eru til varn­ings sem þar er seld­ur.

Spurð hvort hún telji fýsi­legt fyr­ir Ísland að ná slík­um fríversl­un­ar­samn­ingi í ljósi reynslu Evr­ópu­sam­bands­ins seg­ir Þor­gerður það trú sína að fjölþjóðasamn­ing­ar gagn­ist Íslend­ing­um bet­ur en tví­hliða. Samn­ings­staða Íslands gagn­vart Banda­ríkj­un­um sé mun verri en ríkja­banda­lags á borð við ESB. Má því skilja af orðum henn­ar að hún telji ekki lík­legt að Íslend­ing­um byðust betri kjör en ESB.

„Það er hins veg­ar eng­in spurn­ing að það er mik­il­vægt að halda sterku og góðu efna­hags­sam­starfi við Banda­ríkja­menn, sem eru gam­all bandamaður til ára­tuga,“ seg­ir Þor­gerður en bæt­ir þó við að það skjóti skökku við að mark­mið nú­ver­andi stjórn­valda þar í landi sé að grafa und­an fjölþjóðasam­vinnu, sem Banda­rík­in hafi lengst af verið í far­ar­broddi fyr­ir. „Það eru spenn­andi tím­ar fram und­an,“ klykk­ir hún út með.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert