Iðulega er heillegum hlutum sem fólk hyggst setja í nytjagám í Sorpu, sem fer í Góða hirðinn til sölu, hafnað á þeim forsendum að þeir seljist ekki þar. Hallgerður Hauksdóttir sem er áhugasöm um endurnýtingu furðar sig á þessu fyrirkomulagi. Hún bendir á ýmsar lausnir á þessu máli, t.d. væri hægt að lækka verð í Góða hirðinum eða koma upp gámum þar sem fólk gæti hirt hluti.
Þegar Hallgerður lagði leið sína í Sorpu á dögunum blöstu við henni staflar af heillegum hlutum sem átti að farga því starfsmenn Sorpu gátu ekki tekið við þeim í nytjagáminn. „Ég spurði út í þetta og fékk þau svör að það borgaði sig ekki að leyfa þessum hlutum að fara í gegnum Góða hirðinn. Það bæri sig ekki,“ segir hún.
Á sama tíma hefur verð hækkað mjög mikið þar, að sögn hennar. „Mér finnst mjög sérkennilegt að á sama tíma og hlutir fara treglega út úr fyrirtækinu sé verðið hækkað,“ segir hún. Sjálf hafi hún rekist á hluti í Góða hirðinum úr IKEA og þeir hafi verið dýrari þar notaðir en nýir úr versluninni. Hún spyr hvers vegna ekki sé hægt að vera með duglegan afslátt í Góða hirðinum einhverja daga ef það eru jafn mikil þyngsli af rekstrinum líkt og þau svör sem hún hefur fengið um að óseldir hlutir safnist upp í húsnæðinu.
Hún segir fólk samviskusamlega halda til haga hlutum sem það telur endurnýtanlega og vill taka þátt í því að vera ábyrgt gagnvart umhverfinu og koma hlutum á rétta staði. Hins vegar sé fólki meinað að gera slíkt. Aðventuljós var eitt af því sem Hallgerður rakst á og ekki komst í gám Góða hirðisins. „Ég fékk þau svör að þetta væri ekki réttur árstími fyrir jóladót,“ segir hún.
Hallgerður bendir á að í Danmörku sé þessu háttað með öðrum hætti. „Kunningi minn sem býr í Danmörku getur farið með hluti í endurvinnslu og náð í dót í gáma sem fólk hefur ekki lengur not fyrir,“ segir hún. Hún segir að ef hægt sé að halda úti starfsmanni sem vísar fólki frá með hluti geti sá hinn sami starfsmaður Sorpu haldið utan um gám þar sem fólk geti náð sér í hluti. „Það segir sig sjálft,“ segir hún.
Sorpa er í eigu sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar.
„Ef það er markmið sveitarfélaganna að vera ábyrgt gagnvart endurvinnslu og endurnýtingu þá er ekki verið að uppfylla það markmið með þessari nálgun,“ segir hún og bætir við: „Það erum við borgararnir sem borgum skatt og rekum þetta fyrirtæki. Að segja við okkur að það sé ekki hægt að þjónusta okkur með fyrirtæki sem við rekum er stórfurðulegt. Við eigum að hugsa í lausnum. Það er hægt að leysa þetta öðruvísi en að henda öllu þessu dóti,“ segir hún.
Hallgerður skorar á þá sem vilja fylgja henni að málum að skrifa undir bréf sem sent verður til Sorpu til að reyna að breyta þessu fyrirkomulagi. Hægt er að gera það í gegnum facebookhópinn Áhugahópur um endurvinnslu og endurnýtingu.