Einn íbúi á Droplaugarstöðum hefur greinst með hermannaveiki. Bakterían lifir í vatni og getur vaxið í vatnslagnakerfi. Í tveimur af fimm sýnum sem heilbrigðiseftirlitið tók á staðnum greindist bakterían. Íbúinn sem veiktist var lagður inn á Landspítalann um tíma en er nú kominn heim og á batavegi.
„Við förum yfir allt vatnslagnakerfið og allar pípulagnir verða hreinsaðar. Við settum okkur strax í samband við sérfræðinga hjá Mannviti sem sjá um að framkvæma það. Það tekur tvo til þrjá daga,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður dvalarheimilisins Droplaugarstaða.
Núna er unnið eftir leiðbeiningum Landlæknis og Landspítalans við að hreinsa bakteríuna úr lagnakerfinu og gerðar viðeigandi ráðstafanir fram að því. Íbúum er bent á að ef þeir ætli að nota sturtuna þurfi að láta heitt vatn renna í fimm mínútur og með því ætti bakterían að vera farin. Stefnt er að því að eftir helgi verði búið að hreinsa allt kerfið.
Þeir einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir geta veikst af völdum bakteríunnar. „Legionella“-bakterían sem kallast hermannaveiki er ekki bráðsmitandi og smitast ekki á milli manna.
Þetta er umhverfisbaktería sem lifir í vatni og er mjög víða að finna í umhverfinu. Í náttúrulegu umhverfi er fjöldi þeirra lítill en í manngerðum vatnskerfum þar sem aðstæður eru þeim hagstæðar geta þær fjölgað sér.
Umfjöllun um hermannaveiki á Vísindavef Háskóla Íslands.