John McAfee í felum á Dalvík

McAfee hafðist um tíma við á snekkju sinni á flóttanum.
McAfee hafðist um tíma við á snekkju sinni á flóttanum. AFP

Milljónamæringurinn og tæknifrumkvöðullinn John McAfee, sem er á flótta undan bandarískum yfirvöldum vegna ákæra um umfangsmikil skattsvik, hélt til á Dalvík þangað til síðla í ágúst ef marka má twitterfærslu hans.

McAfee er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað vírusvarnarfyrirtæki, sem nefnt er í höfuðið á honum sjálfum, auk þess sem hann var um tíma grunaður um morð á nágranna sínum í Belís, en sá var bandarískur kaupsýslumaður. McAfee hefur ávallt neitað sök í málinu.

McAfee hefur farið huldu höfði eftir að hann yfirgaf Bandaríkin í janúar á þessu ári, en hann leyfir fylgjendum að fylgjast með ævintýrum sínum á Twitter.

Í lok ágúst tilkynnti hann þeim að hann og eiginkona hans hefðu flutt sig um set af því einhver „f*viti“ hafi komið upp um staðsetningu þeirra. „Við höfum komið okkur fyrir á nýjum stað í nýju landi. Veðrið er enn ömurlegt ... Við munum sakna Gregor's.“

Gregor's er einmitt veitingastaður á Dalvík, og í öðru tísti viðurkenndi McAfee að hann hefði í raun sjálfur komið upp um sig með því að minnast á Gregor's. Raunar ætti uppljóstrarinn, Adam Guerbuez, hrós skilið fyrir rannsóknarvinnu sína. „Ef ég ætti pening myndi ég ráða þig, Adam.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert