Lögreglan hafði afskipti af nýnasistum

mbl/Arnþór

Félagsmenn í nýnasistasamtökunum Norðurvígi komu saman á Lækjartorgi í Reykjavík í dag og dreifðu áróðri sínum. Tilkynnt var um veru þeirra þar og mætti lögreglan á staðinn.

Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, staðfestir í samtali við mbl.is að tilkynning hafi borist í þessum efnum og að lögregluþjónar hafi verið sendir á staðinn. Þeir hafi rætt við mennina og tekið niður nöfn þeirra.

Dreifirit, sem mennirnir buðu vegfarendum að taka við, er það sama og dreift var í íbúðarhús á Kársnesi í Kópavogi í gær og hugsanlega víðar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir meðal annars að hugmyndafræði samtakanna sé þjóðernisfélagshyggja sem er bein þýðing á þýska hugtakinu „Nationalsozialismus“ sem aftur er sú stefna sem þýskir nasistar undir forystu Adolfs Hitlers stóðu fyrir á fyrri hluta síðustu aldar.

Samtökin eru hluti af norrænni hreyfingu nýnasista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert