Loo er með stór áform í Landsveit

Loo Eng Wah vinnur að uppbyggingu ferðaþjónustu að Leyni 2 …
Loo Eng Wah vinnur að uppbyggingu ferðaþjónustu að Leyni 2 og 3 í Landsveit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er niðursveifla í ferðaþjónustunni á Íslandi. Ferðamönnum hefur fækkað og við þurfum eitthvað til í það minnsta að gera landið jafn vinsælt og áður, ef ekki vinsælla. Ég held að uppbygging sem þessi hjálpi til,“ segir Loo Eng Wah sem stendur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu að Leyni 2 og 3 í Landsveit.

Morgunblaðið hefur greint frá umræddri uppbyggingu en íbúar og sumarhúsaeigendur hafa bundist samtökum til að mótmæla þeim. Vilja þeir meina að sveitarfélagið hafi ekki staðið rétt að kynningu á umræddum áformum og að þau séu of stórtæk. Íbúarnir hafa staðhæft að þarna geti risið allt að 500 manna þorp með tilheyrandi raski.

Loo segir í viðtali við Morgunblaðið að því fari fjarri að áform hans séu jafn stórtæk og íbúar hafi haldið fram. Hann vonast til að framkvæmdirnar fari fram í sátt við fólk á svæðinu.

„Við höfum lagt fram áform okkar til sveitarfélagsins og þau hafa verið sett í kynningu. Nú er verið að safna umsögnum,“ segir Loo. „Við erum ekki að fara að reisa 350 manna þorp. Og hvað þá 500 manna, það er ómögulegt! Við vitum að einn helsti kosturinn við Ísland er víðáttan og friðsældin og ætlum ekki að raska því. Ég hef ferðast um allan heim og veit vel að svæði sem er krökkt af byggingum dregur engan að sér. Fólk kemur til Íslands til að njóta útsýnis. Við viljum selja fólki ferðir hingað til lands, ef það eru hús úti um allt þá kemur enginn.“

Hann rekur áform sín og segir að byrjað hafi verið á að uppfæra gamalt tjaldsvæði sem ekki hafi verið í notkun um hríð. Þar hefur verið komið fyrir hjólhýsum og stefnt er að því að við bætist kúluhús sem eiga að henta einkar vel fyrir þá sem vilja njóta norðurljósanna. „Við höfum ekki hreyft við trjám eða gróðri en höfum þurft að grafa til að tengja hjólhýsin við vatn. Það hefur svo verið gengið frá því öllu aftur. Við höldum raski á náttúrunni í lágmarki.“

Loo ætlar að reisa norðurljósamiðstöð að Leyni.
Loo ætlar að reisa norðurljósamiðstöð að Leyni.

Næsta skref uppbyggingarinnar verður uppbygging sumarhúsa. Loo bendir á að fyrir séu sumarhús á nærliggjandi jörð og því verði húsin sem rísa einskonar framhald af þeirri byggð.

Loo er frá Malasíu og rekur ferðaþjónustuna New Horizons sem sérhæfir sig í að koma með ferðamenn frá Asíu hingað til lands. „Ég hef markaðssett Ísland í Malasíu og fjöldi ferðamanna þaðan hefur aukist mikið. Svo höfum við fært út kvíarnar og kynnum Ísland á nýjum slóðum, til dæmis í Indónesíu, Taílandi og Víetnam,“ segir hann og leggur áherslu á að ferðamenn frá Asíu séu eftirsóttir.

Mun lengra viðtal er við Loo í Morgunblaðinu í dag þar sem hann ræðir meðal annars fjármögnun verkefnisins og uppbyggingu þess frekar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert