Sakar Pence um „meinfýsinn rógburð“

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi.
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sendiherra Kína á Íslandi sakar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um „meinfýsinn rógburð“ og „falsfréttir“ vegna ummæla Pence um verkefnið Belti og braut sem kínversk stjórnvöld hafa unnið að á undanförnum árum.

Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins, en þar vísar sendiherrann, Jin Zhijian, til þeirra ummæla Pence að Ísland hafi hafnað þátttöku í verkefni Kínastjórnar. Pence sagðist í gær þakklátur Íslendingum fyrir að hafna þátttöku og sagðist hafa rætt það fyrr um daginn við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. mbl.is/​Hari

Guðlaugur Þór lýsti því yfir síðar um daginn í kjölfar ummæla Pence að orðalag varaforsetans hefði ekki verið alveg nákvæmt. Íslendingar hefðu ekki hafnað þátttöku en heldur ekki samþykkt hana.

Jin sagði í frétt Ríkisútvarpsins að íslenskir stjórnmálamenn væru þegar búnir að hrekja ummæli Pence og vísaði þar væntanlega til utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert