Útsvar á fjármagnstekjur til skoðunar

Sanna Magdalena Mörtudóttir (t.h.) lagði fram tillöguna í borgarstjórn á …
Sanna Magdalena Mörtudóttir (t.h.) lagði fram tillöguna í borgarstjórn á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum sl. þriðjudag að vísa tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um álagningu útsvars á fjármagnstekjur til borgarráðs.

Tillagan felur í sér að borgarfulltrúar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga leiti til hinna sveitarfélaganna í landinu með það að markmiði að mynda samstöðu um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur með lögum frá alþingi.

„Öfugt við launatekjur bera fjármagnstekjur ekkert útsvar og hér er því um gríðarlega fjármuni að ræða fyrir sveitarfélögin. Þar sem sveitarfélög geta ekki lagt á umrædda skatta án laga frá Alþingi er lagt til að tillagan verði tekin fyrir innan sambandsins,“ segir í tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins.

Í bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna vegna tillögunnar segir að mikilvægt sé að tryggja sveitarfélögum nauðsynlega tekjustofna í samræmi við þau mikilvægu verkefni sem þau inna af hendi í þágu íbúa.

„Í meirihlutasáttmála stendur að leita skuli eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um kostnaðarþátttöku varðandi rekstur sem íbúar svæðisins nýta í sameiningu. Tillaga Sósíalistaflokksins fellur vel að þessu verkefni og því er málinu vísað til borgarráðs til nánari skoðunar.“

„Þessi tillaga er skattahækkunartillaga“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast hins vegar alfarið gegn hugmyndum um skattahækkanir, enda séu skattar í Reykjavík í hæstu hæðum. „Þessi tillaga er skattahækkunartillaga,“ segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

„Hófleg skattheimta á fjármagnstekjur er undirstaða fjárfestingar og lífeyriskerfisins í landinu. Með hærri sköttum væri dregið úr fjárfestingargetu og gengið á sparnað almennings. Komið er að þolmörkum fyrirtækja og heimila í borginni hvað varðar skatta og gjöld. Afstaða Sósíalista kemur ekki á óvart, en það er með ólíkindum að Viðreisn skuli standa að auknum sköttum í borginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert