„Þetta er að mörgu leyti djörf ákvörðun finnst mér,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur og prófessor, um ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að velja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem næsta dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is.
„Hann velur náinn samverkamann og manneskju, eigum við að segja, úr hans hópi í flokknum. Þannig að hann velur til frama manneskju sem hefur staðið þétt við hlið hans í erfiðum málum,“ bætir hann við.
Eiríkur telur ljóst að Bjarni sé með þessari ákvörðun ekki að teygja sig til afla sem hafa verið í átökum við formanninn innan flokksins heldur velja manneskju sem stendur honum nærri.
„Mér finnst athyglisvert að hann er ekki endilega að teygja sig til þeirra sem hafa verið gagnrýnir á forystuna heldur miklu frekar verðlaunar manneskju sem hefur staðið þétt við hlið hans.“
Það sé merki um að formaðurinn sé ekki að leita jafnvægis við þá sem hafa verið í andstöðu við hann innan flokksins eða reyna að jafna fylkingar innan hans.
„Hann treystir mjög ungum stjórnmálamanni fyrir krefjandi verkefni en það er líka þannig sem stjórnmálamenn vaxa. Það er einhver sem veitir þeim tækifæri til þess,“ segir Eiríkur og bætir því við að hann telji að Bjarni hafi ígrundað ákvörðun sína mjög vel.
„Það tekur hann langan tíma að komast að þessari ákvörðun, frá því að Sigríður segir af sér. Tíminn segir okkur að hann hafi velt þessu rækilega fyrir sér.“
Margir reynslumeiri þingmenn höfðu verið nefndir til sögunnar sem mögulegir valkostir fyrir Bjarna og ber þá helst að nefna þá Brynjar Níelsson, Pál Magnússon og Birgi Ármannsson. Spurður hvort ákvörðun Bjarna að velja Áslaugu fram yfir þá geti talist áfall eða vonbrigði svarar Eiríkur því þannig að enginn eigi fyrirfram tilkall til ráðherraembættis.
„Ég held það geti ekki verið áfall fyrir nokkurn mann að verða ekki ráðherra. Ráðherradómur er ekki eitthvað sem þú átt tilkall til. Það getur vel verið að einhverjir hafi orðið fyrir vonbrigðum en þeir verða þá bara að eiga það við sjálfa sig myndi ég halda.“
Að lokum segir Eiríkur ljóst að kynjahlutföll í ríkisstjórninni og staða Áslaugar Örnu sem bandamanns Bjarna innan flokksins hafi líklega átt sinn þátt í valinu.
„Maður getur auðvitað ekki vitað það þegar ákvarðanir annars fólks eru annars vegar. En það er þetta tvennt fyrir utan að hann klárlega treystir henni fyrir verkinu.“
Og bendir ekki allt til þess að hún muni valda verkefninu vel?
„Það er ekkert sem bendir til annars,“ segir hann að lokum.