„Ætla að nálgast þau af auðmýkt“

„Ég trúi á þig og ég treysti þér. Ég óska þér velfarnaðar með öll þessi verkefni sem eru stór, viðkvæm og geta verið brothætt,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þegar hún afhenti nýjum dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, lyklana að dómsmálaráðuneytinu.

„Ég veit að þú munt vanda þig og ég vona að það verði gott fyrir þig og landsmenn að þú sitjir hér,“ bætti hún við. Hún færði Áslaugu Örnu plöntu sem innflutningsgjöf og sagðist vona að báðar tvær myndu vaxa og dafna á nýjum stað.

Kom skemmtilega á óvart

Áslaug Arna var erlendis í gær þegar þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins fundaði í Valhöll og valdi hana í embætti dómsmálaráðherra. Hún vissi ekki af ákvörðun málaráðherra fyrr en einni mínútu áður en fundurinn hófst og tók þátt í honum símleiðis.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði ekki fengið viðvörun um að koma mér heim en það er líka skemmtilegt,“ útskýrir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

Þórdís Kolbrún tekur á móti Áslaugu í dómsmálaráðuneytinu í dag.
Þórdís Kolbrún tekur á móti Áslaugu í dómsmálaráðuneytinu í dag. mbl.is/Þór Steinarsson

Ætlar að setja sitt mark á embættið

Spurð hvert verði hennar fyrsta verk og hvernig hún vilji setja sínar áherslur á embættið segir Áslaug:

„Ég er að stíga inn í embættið í dag og ætla að nýta næstu daga til að kynna mér öll þau viðfangsefni sem varða ráðuneytið. Ég er að koma inn í ríkisstjórn sem starfar eftir ákveðnum sáttmála þótt ég muni auðvitað setja mitt mark á embættið eins og aðrir ráðherrar gera.“

Mun ekki hika við að leita ráða hjá forverum sínum

Dómsmálaráðuneytið er með gríðarlega mörg verkefni á sinni könnu og mörg þeirra stór og erfið viðureignar. Áslaug segist ekkert óttast en ætli að vanda mjög til verka.

„Ég tel mig þekkja málefni dómsmálaráðuneytisins ágætlega. Ég var formaður allsherjar- og menntamálanefndar og þekki hversu stór viðfangsefni eru í þessu ráðuneyti, eins og öðrum ráðuneytum, og ég ætla að nálgast þau af auðmýkt,“ segir Áslaug.

Munt þú leita ráða hjá forverum þínum Sigríði og Þórdísi?

„Já, það er alltaf gott að leita sér ráða hjá reyndu fólki og fólki sem hefur verið hér áður og ég mun gera það,“ bætir hún við að lokum.

mbl.is/Þór Steinarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert