„Ætla að nálgast þau af auðmýkt“

00:00
00:00

„Ég trúi á þig og ég treysti þér. Ég óska þér velfarnaðar með öll þessi verk­efni sem eru stór, viðkvæm og geta verið brot­hætt,“ sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir þegar hún af­henti nýj­um dóms­málaráðherra, Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur, lykl­ana að dóms­málaráðuneyt­inu.

„Ég veit að þú munt vanda þig og ég vona að það verði gott fyr­ir þig og lands­menn að þú sitj­ir hér,“ bætti hún við. Hún færði Áslaugu Örnu plöntu sem inn­flutn­ings­gjöf og sagðist vona að báðar tvær myndu vaxa og dafna á nýj­um stað.

Kom skemmti­lega á óvart

Áslaug Arna var er­lend­is í gær þegar þing­flokks­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins fundaði í Val­höll og valdi hana í embætti dóms­málaráðherra. Hún vissi ekki af ákvörðun málaráðherra fyrr en einni mín­útu áður en fund­ur­inn hófst og tók þátt í hon­um sím­leiðis.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði ekki fengið viðvör­un um að koma mér heim en það er líka skemmti­legt,“ út­skýr­ir Áslaug Arna í sam­tali við mbl.is.

Þórdís Kolbrún tekur á móti Áslaugu í dómsmálaráðuneytinu í dag.
Þór­dís Kol­brún tek­ur á móti Áslaugu í dóms­málaráðuneyt­inu í dag. mbl.is/Þ​ór Stein­ars­son

Ætlar að setja sitt mark á embættið

Spurð hvert verði henn­ar fyrsta verk og hvernig hún vilji setja sín­ar áhersl­ur á embættið seg­ir Áslaug:

„Ég er að stíga inn í embættið í dag og ætla að nýta næstu daga til að kynna mér öll þau viðfangs­efni sem varða ráðuneytið. Ég er að koma inn í rík­is­stjórn sem starfar eft­ir ákveðnum sátt­mála þótt ég muni auðvitað setja mitt mark á embættið eins og aðrir ráðherr­ar gera.“

Mun ekki hika við að leita ráða hjá for­ver­um sín­um

Dóms­málaráðuneytið er með gríðarlega mörg verk­efni á sinni könnu og mörg þeirra stór og erfið viður­eign­ar. Áslaug seg­ist ekk­ert ótt­ast en ætli að vanda mjög til verka.

„Ég tel mig þekkja mál­efni dóms­málaráðuneyt­is­ins ágæt­lega. Ég var formaður alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar og þekki hversu stór viðfangs­efni eru í þessu ráðuneyti, eins og öðrum ráðuneyt­um, og ég ætla að nálg­ast þau af auðmýkt,“ seg­ir Áslaug.

Munt þú leita ráða hjá for­ver­um þínum Sig­ríði og Þór­dísi?

„Já, það er alltaf gott að leita sér ráða hjá reyndu fólki og fólki sem hef­ur verið hér áður og ég mun gera það,“ bæt­ir hún við að lok­um.

mbl.is/Þ​ór Stein­ars­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert