Áfengis- og tóbaksgjöld munu skila ríkinu 26 milljörðum króna á næsta ári, ef áætlanir ganga eftir. Er það litlu minna en fjármagnstekjuskattur, en af honum fær ríkið 33 milljarða króna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í morgun en til stendur að leggja það fram á alþingi eftir helgi. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins verði 919,5 milljarðar, en þar af koma 817,3 milljarðar frá svokölluðum tekjustofnum ríkisins, sköttum og öðrum gjöldum. Það sem upp á vantar, um 100 milljarðar króna, skýrist af arðgreiðslum ríkisfyrirtækja, vaxtagreiðslum og þess háttar.
Virðisaukaskattur er sem fyrr stærsti tekjustofn ríkisins, og stendur undir tæpum þriðjungi hans, um 259 milljörðum króna. Á hæla hans kemur tekjuskattur einstaklinga, en hann skilar 206 milljörðum, um 25%, þrátt fyrir að tekjuskattur lækki milli ára.
Þriðji stærsti tekjustofninn er tryggingagjöld, sem meðal annars er ætlað að standa undir atvinnuleysisbótum, fæðingarorlofsgreiðslum og sjúkragreiðslum. Tryggingagjald er nú 6,60% og hefur lækkað ár frá ári, frá árinu 2011 og stendur til að lækka það um 0,25 prósentustig, niður í 6,35%, um áramót. Mun sú lækkun kosta fjóra milljarða króna.
Það kann að vekja athygli einhvers hve litlu fjármagnstekjuskattur skilar í raun ríkinu, 33 milljörðum á ári, en eins og áður segir er það litlu meira en tekjur ríkisins af áfengis- og tóbaksgjöldum, og töluvert minna en sértekjur af ökutækjum og eldsneyti, sem nema 49 milljörðum. Hvort það er til marks um of lágan fjármagnstekjuskatt, eða skattpíningu áfengis- og bílkaupenda, má sjálfsagt deila um.
Þess má geta að það hefur lengi verið baráttumál listamanna að hugverk skuli teljast eignir og tekjur af þeim fjármagnstekjur í stað launatekna.
Það gekk eftir í sumarlok þegar alþingi samþykkti frumvarp þess efnis, og teljast nú beinar tekjur af nýtingu á verki vera fjármagnstekjur. Undir það falla til að mynda tekjur vegna flutnings verks í útvarpi eða tónverks í leiksýningu, tekjur vegna notkunar listaverks á tækifæriskort, tekjur vegna upplestrar úr útgefnu bókmenntaverki og svo framvegis.
Sala á útgáfurétti, bókum, tónlist, myndverkum, aðgöngumiðum á listviðburði og öðru slíku telst engu að síður til almennra tekna viðkomandi og af greiðist tekjuskattur.
Þessari breytingu fögnuðu samtök tónlistarrétthafa, Samtón, og þótti „tímabær, réttlát og sanngjörn“. Greiða þeir nú aðeins 22% fjármagnstekjuskatt af tekjum sem áður skilgreindust öðruvísi og báru þá fullan tekjuskatt, 36,94% eða 46,24% eftir þrepum.
Munurinn á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti má í raun alfarið skrifa á útsvarsgreiðslur, þann hluta tekjuskattsins sem sveitarfélög leggja á, en útsvarið nemur að meðaltali um 14,44 prósentustigum á launatekjur. Sveitarfélögum er hins vegar ekki heimilt að skattleggja fjármagnstekjur með sama hætti.
Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að vísa tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um álagningu útsvars á fjármagnstekjur til borgarráðs.