Gott að „smakka þennan sjó“

Marglytturnar undirbúa sig vel á meðan þær bíða eftir að …
Marglytturnar undirbúa sig vel á meðan þær bíða eftir að hefja boðsundið yfir Ermasundið. Ljósmynd/Aðsend

Marglytturnar, sem ætla að synda boðsund yfir Ermarsundið, bíða enn af sér brælu í Dover. Þær sitja ekki auðum höndum á meðan heldur æfa sig í sjónum og sinna andlega þættinum. Mögulega komast þær í sundið aðfaranótt sunnudags en það skýrist fljótlega. 

„Við tókum morgunæfingu í miklum veltingi. Við syntum í ferning og fengum ölduna á okkur á alla kanta. Það er frekar vont að fá hana á hlið en allt er þetta góð æfing,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir, ein af sexmenningunum. 

Í dag fer hópurinn yfir verðurspána með skipstjóra hópsins. „Okkur sýnist vera veðurgluggi aðfaranótt sunnudagsins. Spáin er ekki fullkomin, vindur og ölduhæð, en það gæti dugað,“ segir hún. 

Þær komu mánudaginn 2. september til Dover og eru með sundrétt frá 3. til 10. september. Daginn eftir komuna hittu þær skipstjórann sem ákveður daginn sem þær fara með tilliti til aðstæðna en hann hefur æðsta valdið. 

„Mér hefur fundist gott að hafa andrúm til að æfa, smakka þennan sjó og skoða þetta vel,“ segir hún. Þær eru með dagskrá á hverjum degi og segir hún að þeim líði vel og séu mjög peppaðar fyrir verkefninu.  

„Í dag tökum við hópfund og tölum um liðsandann. Förum yfir hvernig við viljum bregðast við ef eitthvað gerist á bátnum. Við gerðum það áður en við komum hingað en alltaf er gott að fara betur yfir hlutina,“ segir hún. 

Öll áheit sem safn­ast vegna sunds­ins renna beint til um­hverf­is­sam­tak­anna Bláa hers­ins.

Í sund­hópn­um eru Sigrún Þ. Geirs­dótt­ir, Þórey Vil­hjálms­dótt­ir, Birna Braga­dótt­ir, Hall­dóra Gyða Matth­ías­dótt­ir, Sig­ur­laug María Jóns­dótt­ir og Bryn­hild­ur Ólafs­dótt­ir og skipu­leggj­end­ur eru Soffía Sig­ur­geirs­dótt­ir og Gréta Ingþórs­dótt­ir. Lands­menn geta stutt við Mar­glytt­ur í AUR-app­inu í síma 788-9966 eða lagt inn á reikn­ing 0537-14-640972, kt. 250766-5219.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert