Flest krónutölugjöld verða hækkuð um 2,5% um áramót, að því er fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var í dag. Er það minni hækkun en sem nemur verðlagshækkunum, en verðbólga undanfarna tólf mánuði nam 3,4%. Lækkar því fjárhæð þessara gjalda milli ára, að raunvirði.
Meðal krónutölugjalda má nefna nefskattana útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, en þessir tveir skattar leggjast á alla sem náð hafa 16 ára aldri. Útvarpsgjald er nú 17.500 krónur en verður eftir hækkun tæpar 17.940 krónur. Gjaldið í framkvæmdasjóð er 11.454 krónur, en verður að öllum líkindum 11.740 krónur á næsta ári.
Krónutölugjöld leggjast einnig á olíu, áfengi og tóbak og er sömu sögu að segja þar; gjöldin hækka um 2,5%.