Tekjuskattur á lægstu laun lækkar um 5,5 prósentustig á þarnæsta ári. Þetta kom fram í kynningu á fjárlagafrumvarpi næsta árs nú í morgun, en til stendur að leggja það fyrir alþingi í næstu viku.
Tekjuskattsþrepin eru nú tvö, 36,94% og 46,24%. Strax á næsta ári verður kynnt til sögunnar nýtt lágtekjuþrep á laun upp að 325.000 krónum og og mun það bera 35,04% skatt á næsta ári áður en það lækkar niður í 31,44% og mun þá hafa lækkað um 5,5 prósentustig frá því sem nú er.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð því persónuafsláttur verður í leiðinni lækkaður. Hann nemur nú 56.447 krónum á mánuði. Í stað þess að hækka í takt við verðlag, líkt og hann hefur gert undanfarin ár, verður hann hins vegar lækkaður og mun að tveimur árum liðnum nema 51.265 krónum á mánuði, og verður það til þess að skattbyrðin lækkar ekki jafnmikið og lækkun skattprósentunnar segir til um, en skattleysismörk haldast óbreytt að raunvirði gegnum lækkun persónuafsláttar.
Þá verður hið nýja miðþrep skattkerfisins, sem leggst á tekjur á milli 325.000 krónur og um það bil 900.000 krónur, 37,94% af launum, einu prósentustigi hærra en nú er.
Skattbyrði lágtekjufólks mun engu að síður minnka, mest hjá þeim sem hafa mánaðartekjur upp á 325.000 krónur, en ráðstöfunartekjur þeirra verða árið 2021 um 12.900 krónum hærri en nú er. Ávinningurinn fjarar út eftir því sem tekjur hækka, þar sem hið nýja miðþrep verður, sem fyrr segir, hærra en lægra skattþrepið sem nú er. Eftir stendur þó að enginn kemur verr út úr nýja fyrirkomulaginu nema ríkissjóður, en með breytingunum verður hann af um 21 milljarði, 10% af tekjum af tekjuskatti.