Les bara um „nýja WOW“ í fjölmiðlum

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála hefur ekkert heyrt um áform …
Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála hefur ekkert heyrt um áform „nýja WOW“ nema bara það sem hann hefur lesið í fjölmiðlum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eigum við ekki bara öll að gleðjast yfir því að það er áhugi á því að fljúga til og frá Íslandi og takast á við það að flytja fleiri farþega hingað, í kjölfarið á að þeim fækkaði. En svo skulum við sjá hvaða hugmyndir fólk er með og hvort þær verði að veruleika áður en við förum kannski að tala mikið um þær,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, inntur eftir viðbrögðum við þeim fregnum að flugfélag sem ber nafnið WOW air sé að fara aftur í loftið í lok október.

Nýja félagið, WOW AIR LLC, verður ekki íslenskt heldur bandarískt. Félagið verður með höfuðstöðvar á Washington Dulles-alþjóðaflugvellinum og starfar á bandarísku flugrekstrarleyfi, allavega til að byrja með. Michelle Roosevelt Edwards, sem verður stjórnarformaður hins nýja félags, boðar að félagið muni hefja flug á milli Washington og Keflavíkur í októbermánuði.

Sigurður Ingi segir að hann þekki ekkert til mála hins nýja félags, heldur lesi hann bara um fyrirætlanir þess í fjölmiðlum eins og aðrir.

Michelle Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michelle Ballarin, kynnti áform …
Michelle Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem Michelle Ballarin, kynnti áform nýja WOW á blaðamannafundi fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Isavia ekkert heyrt formlega

„Okkur hjá Isavia hafa ekki borist formlegar upplýsingar um áform félagsins en við fögnum öllum því þegar félög sýna því áhuga að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við mbl.is, en hann bætir við að þau félög sem vilji fljúga til Keflavíkurflugvallar sæki um flugtíma (e. slot) til dansks fyrirtækis sem sér um úhlutun þeirra fyrir hönd Keflavíkurflugvallar.

Eins og hvert annað erlent flugfélag

Ekki fengust upplýsingar frá Samgöngustofu um það hvort „nýja WOW“ hefði sótt um íslenskt flugrekstrarleyfi. Mat Þórhildar Elínar Elínardóttur, upplýsingafulltrúa stofnunarinnar, er að nýja WOW verði eins og hvert annað erlent flugfélag sem flýgur hingað til lands samkvæmt gagnkvæmum loftferðasamningum.

Þetta mat Þórhildar er miðað við þær forsendur og upplýsingar sem hafa verið gefnar út um nýja flugfélagið.

Síðasta flug­vél­in merkt WOW air tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli …
Síðasta flug­vél­in merkt WOW air tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli í sumar. Nýtt bandarískt félag ætlar að nýta vörumerki félagsins og stefnir á flug á milli Washington og Keflavíkur í október. mbl.is/Hari

Þórhildur Elín gat ekki tjáð sig um það hvort umsókn frá „nýja WOW“ um íslenskt flugrekstrarleyfi hefði borist Samgöngustofu, en sem áður segir sagði Michelle Roosevelt Edwards við blaðamenn fyrr í dag að nýja félagið myndi starfa á bandarísku leyfi til að byrja með.

„Það tekur tíma að fá íslenskt flugrekstrarleyfi. Það þurfa allar forsendur og skilyrði að vera uppfyllt áður. Þetta er alltaf svolítið ferli og fer eftir því hversu vel undirbúnir umsóknaraðilarnir eru,“ útskýrði Þórhildur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert