Tugir grindhvala eru strandaðir í fjörunni við Ytra-Lón á Langanesi.
Samkvæmt fréttaritara mbl.is er um u.þ.b. 60 hvali að ræða aðstæður slæmar. „Þetta er hræðilegt dauðastríð og erfitt að horfa upp á þá kveljast í fjörunni,“ segir Líney Sigurðardóttir.
Göngufólk kom að hvölunum fyrr í dag og gerði lögreglu viðvart, sem hefur lokað veginum niður í fjöruna. Ekki náðist í lögregluna á Þórshöfn, en í samtali við RÚV segir Steinar Snorrason varðstjóri að unnið sé að því að koma dýrunum aftur út á sjó.
Verið sé að safna saman mannskap til þess að sinna björgunarstörfum.
Uppfært kl. 21:30: Samkvæmt fréttaritara mbl.is á staðnum er um 62 hvali að ræða, en munu aðeins á annan tug þeirra vera enn á lífi.