Alltaf að taka áhættu

Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson segist reyna að velja sér ögrandi …
Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson segist reyna að velja sér ögrandi verkefni. „Ég get þá farið út á hættulega jaðra og þá kynnist ég sjálfum mér betur.“ mbl.is/Ásdís

Hann renn­ir í hlað kaffi­húss­ins á Granda á reiðhjóli, sport­lega klædd­ur í galla­bux­um og striga­skóm, með sólgler­augu á nefi enda skín sól­in glatt þenn­an fal­lega haust­dag. Mætt­ur er einn ást­sæl­asti leik­ari þjóðar­inn­ar, Ingvar E. Sig­urðsson, sem enn einu sinni vinn­ur leik­sig­ur, nú í mynd­inni Hvít­ur, hvít­ur dag­ur sem frum­sýnd var á föstu­dag; mynd sem fær mikið lof gagn­rýn­enda. Ingvar hef­ur staðið á sviði í um þrjá­tíu ár og í seinni tíð birt­ist hann ekki síður á hvíta tjald­inu eða á skján­um að gleðja lands­menn og heims­byggðina með vönduðum leik sín­um.

Þegar blaðamaður und­ir­bjó sig fyr­ir viðtalið kom í ljós að afar fá stór viðtöl höfðu birst við Ingvar í gegn­um tíðina sem kom á óvart. Hann var með út­skýr­ingu á reiðum hönd­um.

„Það er mis­skiln­ing­ur að all­ir leik­ar­ar séu at­hygl­is­sjúk­ir; það á alla vega ekki við um mig,“ seg­ir hann og hlær.

Ingvar seg­ir vel geta farið sam­an að vera hlé­dræg per­sóna og leik­ari. „Að leika snýst ekki um að vera frjáls­leg­ur, held­ur um að hemja sig. Þetta er eins og að temja hest. Maður þarf að temja sjálf­an sig, aga sig inn í hinar og þess­ar aðstæður. Þegar ég var í Hross í oss mynd­inni fannst mér sam­bæri­legt að eiga við hryss­una og að eiga við karakt­er­inn minn. Stund­um verður karakt­er­inn sem þú ert að leika að vera frjáls en þú verður að hemja hann. Það þarf alltaf að taka í taum­ana en samt að leyfa hon­um að halda að hann sé frjáls um leið og maður stjórn­ar hon­um,“ seg­ir Ingvar og ját­ar að þar komi öll reynsl­an til góða. Og reynsl­una hef­ur hann sann­ar­lega. 

Alltaf hrædd­ur um að fest­ast

Eft­ir leik­list­ar­skól­ann var Ingvar fa­stráðinn við Þjóðleik­húsið þar sem hann vann í ára­tug en seg­ist hafa fengið að taka að sér verk­efni meðfram föstu vinn­unni.

„Ég var alltaf hrædd­ur um að fest­ast og hef alltaf verið hrædd­ur um það. Þótt það sé gott að til­heyra hópi vildi ég ekki vera bara þjóðleik­hús­leik­ari. Ég tók þátt í verk­um hjá öðrum leik­hóp­um og var alltaf að fá frí til að fara eitt­hvað annað. Ég var þarna samt í full tíu ár en þá fannst mér ég þurfa að finna fersk­ari vinda og við stofnuðum Vest­urport árið 2001. En þetta var góður skóli og í Þjóðleik­hús­inu sleit ég barns­skón­um sem leik­ari og fékk magnaða reynslu í ótal hlut­verk­um af ýms­um toga. Ég lærði svo mikið af því að leika marg­ar sýn­ing­ar í röð, ný­út­skrifaður úr skóla, eins í Kæru Jelenu og Meist­ar­an­um, sem voru svo vin­sæl­ar. Ég lék í níu­tíu sýn­ing­um af Meist­ar­an­um og 170 af Kæru Jelenu,“ seg­ir Ingvar og tek­ur fyr­ir að það sé þreyt­andi.

„Nei, það eru alltaf nýir áhorf­end­ur og sýn­ing­arn­ar eru aldrei eins. Það er alltaf eitt­hvað skemmti­legt sem ger­ist á hverju kvöldi. Alltaf eitt­hvað óvænt.“
Ingvar seg­ir margt geta komið fyr­ir á lif­andi leik­sviði; fólk get­ur rugl­ast á texta, eða leik­ar­ar jafn­vel hlaupið yfir stór­an kafla.

Ingvar segir sig ekki dreyma um heimsfrægð, þrátt fyrir að …
Ingvar seg­ir sig ekki dreyma um heims­frægð, þrátt fyr­ir að hafa leikið í Hollywood. Hann vel­ur vel þau hlut­verk sem hann kýs að leika og hafn­ar þeim slæmu. mbl.is/Á​sdís

„Ég elska svona stund­ir þegar það ger­ist sem á ekki að ger­ast. Af því að áhorf­and­inn held­ur yf­ir­leitt að hlut­irn­ir eigi að vera svona. Við leik­ar­arn­ir get­um ekki dottið úr karakt­er eða hlaupið út af sviðinu; við verðum að finna út úr mál­inu,“ seg­ir Ingvar og nefn­ir einnig að það hafi komið fyr­ir að raf­magnið hafi farið af í miðri sýn­ingu.

„Það gerðist í leik­ferð úti á landi að húsið réð ekki við hina mátt­ugu kast­ara Þjóðleik­húss­ins,“ seg­ir hann og hlær.

Engl­arn­ir standa upp úr

Við vend­um kvæði okk­ar í kross og för­um út í kvik­mynda­leik­inn. Ingvar seg­ist telja að hann hafi komið að um átta­tíu verk­efn­um sem kvik­mynda- og sjón­varps­leik­ari og er því af mörgu af taka. Í dag skipt­ir Ingvar vinn­unni nokkuð jafnt á milli leik­sviðsins og kvik­mynd­ar­inn­ar og seg­ist jafn­vel leika meira fyr­ir kvik­mynda­vél­ina held­ur en á sviðinu.

Aðpurður hvaða kvik­mynd standi upp úr svar­ar Ingvar: „Engl­arn­ir standa alltaf upp úr af því að hún var svo vin­sæl og er enn, hún lif­ir svo lengi. Eins með Mýr­ina, hún lif­ir ágæt­lega. Sum­ar mynd­ir sofna fljót­lega, það fenn­ir yfir þær, á meðan aðrar lifa leng­ur.“

Harri­son Ford er raun­veru­leg­ur

Ævin­týra­leg­ur fer­ill Ingvars hef­ur leitt hann til mekka kvik­mynd­anna, en fyrsta Hollywood-mynd hans var kaf­báta­mynd­in K-19.

„Það var meiri­hátt­ar æv­in­týri; þetta var karla­sam­fé­lag en leik­stjór­inn var Kat­hryn Big­elow. Hún stjórnaði okk­ur með harðri hendi sem var ágætt en tök­ur stóðu yfir í þrjá mánuði. Harri­son Ford og Liam Nee­son voru stóru pól­arn­ir þarna en ég lék vél­stjór­ann og þeir fyrsta og ann­an kap­tein. Þannig að ég var mikið með þeim í stjórn­klef­an­um. Þeir eru báðir al­veg frá­bær­ir og reynd­ust mér mjög vel. Liam var að reyna að fá mig í ein­hverj­ar mynd­ir eft­ir þetta og benti gjarn­an á mig. Hann hringdi einu sinni í mig þegar hann kom til Íslands en við gát­um ekki hist því miður.“

Sóp­ar maður ekki öllu til hliðar þegar Liam Nee­son hring­ir og vill hitt­ast í kaffi?

Ingvar skelli­hlær. „Ég var að leika á Ísaf­irði,“ seg­ir hann og þótti það greini­lega miður að missa af Liam.

„Það nota­lega við það að kynn­ast leik­ur­um úti í heimi er að sjá að þeir eru að fást við það sama og þú og hugsa svipað. Það vilja all­ir gera vel og það er gam­an að vita að þegar allt kem­ur til alls erum við eins og ein fjöl­skylda.“ Ingvar er ósköp hóg­vær þegar talið berst að því hversu merki­legt það er að leika í Hollywood. „Ég hef ekk­ert verið að velta þess­um hlut­um neitt fyr­ir mér. En auðvitað er fyndið að sjá stjörn­ur eins og Harri­son Ford. Ég man að ég horfði á hann og hugsaði, já ok, hann er þá raun­veru­leg­ur. En hann var strax svo þægi­leg­ur. Krakk­arn­ir mín­ir komu í heim­sókn og hann stakk sjálf­ur upp á að taka mynd af sér með þeim.“

Í bræðralagi með Depp

Ingvar er með umboðsmenn í Los Ang­eles og London og fer oft í pruf­ur sem fara fram í gegn­um netið. Umboðsmenn hans senda á hann til­boð um hlut­verk og seg­ist hann oft hafa hafnað þeim.

„Mjög oft ákveða umboðsmenn­irn­ir það fyr­ir mann því þeir vita hvað maður vill. Stund­um er þetta eitt­hvert drasl. Maður er aldrei betri en bíó­mynd­in sem maður leik­ur í. Ef maður leik­ur í lé­legri bíó­mynd er maður bara lé­leg­ur. Ég hef al­veg leikið í fullt af lé­leg­um bíó­mynd­um,“ seg­ir hann og hlær.

„Maður er alltaf að taka áhættu, í hvert skipti sem maður seg­ir já við ein­hverju hlut­verki.“
Það var ekki erfitt að segja já þegar Ingvar var beðinn um að leika í stór­mynd­inni Fant­astic Be­asts 2 en í henni eru ekki minni stjörn­ur en Johnny Depp og Eddie Red­mayne. „Ég er bú­inn að þekkja Eddie frá því löngu áður en hann varð fræg­ur. Ég kynnt­ist hon­um í Bretlandi en hann var mik­ill aðdá­andi Vest­urports og var mikið í kring­um okk­ur þegar við vor­um að leika í London. Ég leik ekki stórt hlut­verk í mynd­inni; það var reynd­ar pínu­lítið á prenti en stækkaði aðeins. Ég er að vona að ég verði í næstu mynd, þeir hættu nefni­lega við að drepa mig,“ seg­ir Ingvar en tök­ur á þriðju mynd­inni eru ekki hafn­ar.

„J.K. Rowl­ing og henn­ar teymi eru ennþá að skrifa og hugsa sig um,“ seg­ir Ingvar og seg­ir þetta hafa verið afar skemmti­legt verk­efni.

Hvernig er Johnny Depp?

„Mjög fínn.“

Eruð þið vin­ir?

„Nei. Ég er ekki með núm­erið hjá hon­um,“ seg­ir hann og hlær.

„Við hitt­umst og átt­um að gera eina senu sam­an sem var mjög náin og traustið myndaðist strax. Hann var bú­inn að heyra um mig frá leik­stjór­an­um, að ég væri frá­bær gaur frá Íslandi, þannig að við mynduðum strax þetta bræðralag.“

Dreym­ir þig um heims­frægð?

„Nei, alls ekki. Ég vil að mín verði minnst fyr­ir góð störf. Það er allt svo for­gengi­legt hvort sem er, við lif­um þessu lífi og ef við verðum fræg þá fenn­ir yfir það að lok­um.“

Ekki bara um mann í krísu

Við hverf­um aft­ur til nú­tím­ans því kvik­mynd­in Hvít­ur, hvít­ur dag­ur er Ingvari efst í huga þessa dag­ana. Ingvar leik­ur aðal­hlut­verkið í þess­ari nýju ís­lensku kvik­mynd eft­ir Hlyn Pálma­son.

Ingvar seg­ir hann frá­bær­an leik­stjóra. „Ég er bú­inn að nota stór orð um hann og stend við þau. Hlyn­ur er svo skap­andi. Hann er að búa til mynd­list, taka ljós­mynd­ir og skrifa hand­rit meðfram leik­stjórn­inni og ég skoðaði verk hans á sama tíma og ég var að byggja upp karakt­er­inn sem ég var að fara að leika hjá hon­um. Það er frá­bært að fá svona menn sem leggja svona mikið til, svona sterkt og lit­ríkt og ekk­ert kjaftæði,“ seg­ir Ingvar.

Í mynd­inni leik­ur hann Ingi­mund, mann sem misst hef­ur kon­una sína og er mynd­in um ást, hefnd og þrá­hyggju. Ingvar seg­ir hlut­verkið í senn erfitt og ánægju­legt.

„Það var svo gam­an að finna það eft­ir tök­urn­ar að maður var að gera eitt­hvað virki­lega vel. Þetta er eins og að byggja hús sem aldrei hef­ur verið byggt áður; búa til eitt­hvað nýtt. Þér finnst þú vera að setja merki­leg­an stein í vörðuna. Ég er bú­inn að hlakka svo til að Íslend­ing­ar sjái mynd­ina. Við sýnd­um hana á Hornafirði og þá byrjaði mag­inn að ólga en þegar hún var sýnd er­lend­is var ég al­veg slak­ur. Það skipt­ir mann miklu meira máli að sýna þessa mynd hér held­ur en úti í heimi,“ seg­ir hann og seg­ir frá mynd­inni sem er drama­tísk en fynd­in á köfl­um.

„Það má segja að mynd­in hafi hæga opn­un og svo smátt og smátt ger­ist það að hún tek­ur fólk. Það er allt mögu­legt í þess­ari mynd og hún fær fólk til að hugsa. Hún er um mann sem er með þrá­hyggju fyr­ir ákveðnum hlut­um og fer í sjálfspín­ing­ar­ferð með sig. Þetta er líka mynd um fyr­ir­gefn­ingu,“ seg­ir hann.

„Rosalega stór þáttur í myndinni er samband mitt og stelpunnar …
„Rosa­lega stór þátt­ur í mynd­inni er sam­band mitt og stelp­unn­ar og það sam­band sem myndaðist á milli okk­ar var sent af himn­um ofan og skipt­ir höfuðmáli fyr­ir minn karakt­er,“ seg­ir Ingvar um sam­band sitt við Ídu Mekkín Hlyns­dótt­ur sem leik­ur á móti hon­um í mynd­inni Hvít­ur, hvít­ur dag­ur. Ljós­mynd/​Aðsend

Er þetta um mann í krísu sem er að vinna í sjálf­um sér?

„Já, en það hljóm­ar samt svo klisju­kennt og þessi mynd er ekki klisja. Hún er ekki um mann sem er í krísu þó að hún sé um mann sem er í krísu. Hún er um tvenns kon­ar ást; skil­yrðis­lausa ást milli barns og afa og rosa­lega til­finn­ingaþrungna ást milli manns og konu sem er dáin,“ seg­ir hann og nefn­ir að sum­ir töku­dag­ar hafi tekið á.

„Þetta voru erfiðir og kald­ir dag­ar og Ída Mekkín sem leik­ur afa­st­elp­una mína þurfti að setja sig í alls kon­ar aðstæður sem hún hef­ur ekki sett sig í áður. Rosa­lega stór þátt­ur í mynd­inni er sam­band mitt og stelp­unn­ar og það sam­band sem myndaðist á milli okk­ar var sent af himn­um ofan og skipt­ir höfuðmáli fyr­ir minn karakt­er.“

Hefði getað orðið prest­ur

Kaffið er löngu búið úr boll­un­um og Ingvar orðinn allt of seinn á næsta fund en hann læt­ur það ekki trufla sam­tal okk­ar. Það er nóg að ger­ast hjá leik­ar­an­um. Næsta kvik­mynda­verk­efni bíður hand­an við hornið og tjá­ir hann blaðamanni að hann þurfi að fara út á land dag­inn eft­ir.

„Ég er að fara í tök­ur á mynd sem heit­ir Dýrið, alla vega geng­ur hún und­ir því nafni núna. Þetta er mynd eft­ir Valdi­mar Jó­hanns­son en þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Hann skrifaði hand­ritið ásamt Sjón en í henni leika Noomi Rapace, Hilm­ir Snær og Björn Hlyn­ur. Ég leik þarna lítið en mik­il­vægt hlut­verk,“ seg­ir hann og býst hann við að hún verði frum­sýnd á næsta ári.

Ingvar þarf svo að leggja land und­ir fót með mynd­ina Hvít­ur, hvít­ur dag­ur í fartesk­inu og kynna hana fyr­ir heims­byggðinni. Eft­ir ára­mót stíg­ur svo Ingvar á svið í verk­inu Útsend­ing­in í Þjóðleik­hús­inu. Það er mikið ann­ríki en Ingvar seg­ist þó finna tíma til að slaka á.

„Ég eyði mikl­um tíma með Eddu og börn­un­um, þó að þau séu stálpuð. Ég fer í rækt­ina, æfi mig á harmonikk­una mína og fer út í garð að vinna garðverk­in. Svo sinni ég for­eldr­um mín­um og les fyr­ir þau nán­ast á hverj­um degi. Ég fer líka mikið í leik­hús, bíó og á tón­leika.“ Hvað vær­ir þú að gera í dag ef þú hefðir ekki verið lokkaður út á leik­list­ar­braut­ina?

„Ég væri mögu­lega í tónlist því hún hef­ur alltaf fylgt mér, bæði söng­ur og hljóðfæra­leik­ur. Nú ef ekki það hefði ég farið í guðfræði. Mér finnst svo skemmti­legt við lífið hvað það er dul­ar­fullt og eitt af því dul­ar­fulla er þessi spurn­ing um Guð eða eitt­hvað sem er hand­an skyn­fær­anna okk­ar. Ég er samt sátt­ur við mitt hlut­skipti sem leik­ari. En ég hefði getað orðið séra Ingvar.“

Ingvar E. Sigurðsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir og leikstjórinn Hlynur Pálmason …
Ingvar E. Sig­urðsson, Ída Mekkín Hlyns­dótt­ir og leik­stjór­inn Hlyn­ur Pálma­son stilla sér upp við hátíðarfor­sýn­ingu mynd­ar­inn­ar í vik­unni. Ljós­mynd/​Elsa Katrín Ólafs­dótt­ir


Ítar­legt viðtal er við Ingvar í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert