Hann rennir í hlað kaffihússins á Granda á reiðhjóli, sportlega klæddur í gallabuxum og strigaskóm, með sólgleraugu á nefi enda skín sólin glatt þennan fallega haustdag. Mættur er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Ingvar E. Sigurðsson, sem enn einu sinni vinnur leiksigur, nú í myndinni Hvítur, hvítur dagur sem frumsýnd var á föstudag; mynd sem fær mikið lof gagnrýnenda. Ingvar hefur staðið á sviði í um þrjátíu ár og í seinni tíð birtist hann ekki síður á hvíta tjaldinu eða á skjánum að gleðja landsmenn og heimsbyggðina með vönduðum leik sínum.
Þegar blaðamaður undirbjó sig fyrir viðtalið kom í ljós að afar fá stór viðtöl höfðu birst við Ingvar í gegnum tíðina sem kom á óvart. Hann var með útskýringu á reiðum höndum.
„Það er misskilningur að allir leikarar séu athyglissjúkir; það á alla vega ekki við um mig,“ segir hann og hlær.
Ingvar segir vel geta farið saman að vera hlédræg persóna og leikari. „Að leika snýst ekki um að vera frjálslegur, heldur um að hemja sig. Þetta er eins og að temja hest. Maður þarf að temja sjálfan sig, aga sig inn í hinar og þessar aðstæður. Þegar ég var í Hross í oss myndinni fannst mér sambærilegt að eiga við hryssuna og að eiga við karakterinn minn. Stundum verður karakterinn sem þú ert að leika að vera frjáls en þú verður að hemja hann. Það þarf alltaf að taka í taumana en samt að leyfa honum að halda að hann sé frjáls um leið og maður stjórnar honum,“ segir Ingvar og játar að þar komi öll reynslan til góða. Og reynsluna hefur hann sannarlega.
Eftir leiklistarskólann var Ingvar fastráðinn við Þjóðleikhúsið þar sem hann vann í áratug en segist hafa fengið að taka að sér verkefni meðfram föstu vinnunni.
„Ég var alltaf hræddur um að festast og hef alltaf verið hræddur um það. Þótt það sé gott að tilheyra hópi vildi ég ekki vera bara þjóðleikhúsleikari. Ég tók þátt í verkum hjá öðrum leikhópum og var alltaf að fá frí til að fara eitthvað annað. Ég var þarna samt í full tíu ár en þá fannst mér ég þurfa að finna ferskari vinda og við stofnuðum Vesturport árið 2001. En þetta var góður skóli og í Þjóðleikhúsinu sleit ég barnsskónum sem leikari og fékk magnaða reynslu í ótal hlutverkum af ýmsum toga. Ég lærði svo mikið af því að leika margar sýningar í röð, nýútskrifaður úr skóla, eins í Kæru Jelenu og Meistaranum, sem voru svo vinsælar. Ég lék í níutíu sýningum af Meistaranum og 170 af Kæru Jelenu,“ segir Ingvar og tekur fyrir að það sé þreytandi.
„Nei, það eru alltaf nýir áhorfendur og sýningarnar eru aldrei eins. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt sem gerist á hverju kvöldi. Alltaf eitthvað óvænt.“
Ingvar segir margt geta komið fyrir á lifandi leiksviði; fólk getur ruglast á texta, eða leikarar jafnvel hlaupið yfir stóran kafla.
„Ég elska svona stundir þegar það gerist sem á ekki að gerast. Af því að áhorfandinn heldur yfirleitt að hlutirnir eigi að vera svona. Við leikararnir getum ekki dottið úr karakter eða hlaupið út af sviðinu; við verðum að finna út úr málinu,“ segir Ingvar og nefnir einnig að það hafi komið fyrir að rafmagnið hafi farið af í miðri sýningu.
„Það gerðist í leikferð úti á landi að húsið réð ekki við hina máttugu kastara Þjóðleikhússins,“ segir hann og hlær.
Við vendum kvæði okkar í kross og förum út í kvikmyndaleikinn. Ingvar segist telja að hann hafi komið að um áttatíu verkefnum sem kvikmynda- og sjónvarpsleikari og er því af mörgu af taka. Í dag skiptir Ingvar vinnunni nokkuð jafnt á milli leiksviðsins og kvikmyndarinnar og segist jafnvel leika meira fyrir kvikmyndavélina heldur en á sviðinu.
Aðpurður hvaða kvikmynd standi upp úr svarar Ingvar: „Englarnir standa alltaf upp úr af því að hún var svo vinsæl og er enn, hún lifir svo lengi. Eins með Mýrina, hún lifir ágætlega. Sumar myndir sofna fljótlega, það fennir yfir þær, á meðan aðrar lifa lengur.“
Ævintýralegur ferill Ingvars hefur leitt hann til mekka kvikmyndanna, en fyrsta Hollywood-mynd hans var kafbátamyndin K-19.
„Það var meiriháttar ævintýri; þetta var karlasamfélag en leikstjórinn var Kathryn Bigelow. Hún stjórnaði okkur með harðri hendi sem var ágætt en tökur stóðu yfir í þrjá mánuði. Harrison Ford og Liam Neeson voru stóru pólarnir þarna en ég lék vélstjórann og þeir fyrsta og annan kaptein. Þannig að ég var mikið með þeim í stjórnklefanum. Þeir eru báðir alveg frábærir og reyndust mér mjög vel. Liam var að reyna að fá mig í einhverjar myndir eftir þetta og benti gjarnan á mig. Hann hringdi einu sinni í mig þegar hann kom til Íslands en við gátum ekki hist því miður.“
Sópar maður ekki öllu til hliðar þegar Liam Neeson hringir og vill hittast í kaffi?
Ingvar skellihlær. „Ég var að leika á Ísafirði,“ segir hann og þótti það greinilega miður að missa af Liam.
„Það notalega við það að kynnast leikurum úti í heimi er að sjá að þeir eru að fást við það sama og þú og hugsa svipað. Það vilja allir gera vel og það er gaman að vita að þegar allt kemur til alls erum við eins og ein fjölskylda.“ Ingvar er ósköp hógvær þegar talið berst að því hversu merkilegt það er að leika í Hollywood. „Ég hef ekkert verið að velta þessum hlutum neitt fyrir mér. En auðvitað er fyndið að sjá stjörnur eins og Harrison Ford. Ég man að ég horfði á hann og hugsaði, já ok, hann er þá raunverulegur. En hann var strax svo þægilegur. Krakkarnir mínir komu í heimsókn og hann stakk sjálfur upp á að taka mynd af sér með þeim.“
Ingvar er með umboðsmenn í Los Angeles og London og fer oft í prufur sem fara fram í gegnum netið. Umboðsmenn hans senda á hann tilboð um hlutverk og segist hann oft hafa hafnað þeim.
„Mjög oft ákveða umboðsmennirnir það fyrir mann því þeir vita hvað maður vill. Stundum er þetta eitthvert drasl. Maður er aldrei betri en bíómyndin sem maður leikur í. Ef maður leikur í lélegri bíómynd er maður bara lélegur. Ég hef alveg leikið í fullt af lélegum bíómyndum,“ segir hann og hlær.
„Maður er alltaf að taka áhættu, í hvert skipti sem maður segir já við einhverju hlutverki.“
Það var ekki erfitt að segja já þegar Ingvar var beðinn um að leika í stórmyndinni Fantastic Beasts 2 en í henni eru ekki minni stjörnur en Johnny Depp og Eddie Redmayne. „Ég er búinn að þekkja Eddie frá því löngu áður en hann varð frægur. Ég kynntist honum í Bretlandi en hann var mikill aðdáandi Vesturports og var mikið í kringum okkur þegar við vorum að leika í London. Ég leik ekki stórt hlutverk í myndinni; það var reyndar pínulítið á prenti en stækkaði aðeins. Ég er að vona að ég verði í næstu mynd, þeir hættu nefnilega við að drepa mig,“ segir Ingvar en tökur á þriðju myndinni eru ekki hafnar.
„J.K. Rowling og hennar teymi eru ennþá að skrifa og hugsa sig um,“ segir Ingvar og segir þetta hafa verið afar skemmtilegt verkefni.
Hvernig er Johnny Depp?
„Mjög fínn.“
Eruð þið vinir?
„Nei. Ég er ekki með númerið hjá honum,“ segir hann og hlær.
„Við hittumst og áttum að gera eina senu saman sem var mjög náin og traustið myndaðist strax. Hann var búinn að heyra um mig frá leikstjóranum, að ég væri frábær gaur frá Íslandi, þannig að við mynduðum strax þetta bræðralag.“
Dreymir þig um heimsfrægð?
„Nei, alls ekki. Ég vil að mín verði minnst fyrir góð störf. Það er allt svo forgengilegt hvort sem er, við lifum þessu lífi og ef við verðum fræg þá fennir yfir það að lokum.“
Við hverfum aftur til nútímans því kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur er Ingvari efst í huga þessa dagana. Ingvar leikur aðalhlutverkið í þessari nýju íslensku kvikmynd eftir Hlyn Pálmason.
Ingvar segir hann frábæran leikstjóra. „Ég er búinn að nota stór orð um hann og stend við þau. Hlynur er svo skapandi. Hann er að búa til myndlist, taka ljósmyndir og skrifa handrit meðfram leikstjórninni og ég skoðaði verk hans á sama tíma og ég var að byggja upp karakterinn sem ég var að fara að leika hjá honum. Það er frábært að fá svona menn sem leggja svona mikið til, svona sterkt og litríkt og ekkert kjaftæði,“ segir Ingvar.
Í myndinni leikur hann Ingimund, mann sem misst hefur konuna sína og er myndin um ást, hefnd og þráhyggju. Ingvar segir hlutverkið í senn erfitt og ánægjulegt.
„Það var svo gaman að finna það eftir tökurnar að maður var að gera eitthvað virkilega vel. Þetta er eins og að byggja hús sem aldrei hefur verið byggt áður; búa til eitthvað nýtt. Þér finnst þú vera að setja merkilegan stein í vörðuna. Ég er búinn að hlakka svo til að Íslendingar sjái myndina. Við sýndum hana á Hornafirði og þá byrjaði maginn að ólga en þegar hún var sýnd erlendis var ég alveg slakur. Það skiptir mann miklu meira máli að sýna þessa mynd hér heldur en úti í heimi,“ segir hann og segir frá myndinni sem er dramatísk en fyndin á köflum.
„Það má segja að myndin hafi hæga opnun og svo smátt og smátt gerist það að hún tekur fólk. Það er allt mögulegt í þessari mynd og hún fær fólk til að hugsa. Hún er um mann sem er með þráhyggju fyrir ákveðnum hlutum og fer í sjálfspíningarferð með sig. Þetta er líka mynd um fyrirgefningu,“ segir hann.
Er þetta um mann í krísu sem er að vinna í sjálfum sér?
„Já, en það hljómar samt svo klisjukennt og þessi mynd er ekki klisja. Hún er ekki um mann sem er í krísu þó að hún sé um mann sem er í krísu. Hún er um tvenns konar ást; skilyrðislausa ást milli barns og afa og rosalega tilfinningaþrungna ást milli manns og konu sem er dáin,“ segir hann og nefnir að sumir tökudagar hafi tekið á.
„Þetta voru erfiðir og kaldir dagar og Ída Mekkín sem leikur afastelpuna mína þurfti að setja sig í alls konar aðstæður sem hún hefur ekki sett sig í áður. Rosalega stór þáttur í myndinni er samband mitt og stelpunnar og það samband sem myndaðist á milli okkar var sent af himnum ofan og skiptir höfuðmáli fyrir minn karakter.“
Kaffið er löngu búið úr bollunum og Ingvar orðinn allt of seinn á næsta fund en hann lætur það ekki trufla samtal okkar. Það er nóg að gerast hjá leikaranum. Næsta kvikmyndaverkefni bíður handan við hornið og tjáir hann blaðamanni að hann þurfi að fara út á land daginn eftir.
„Ég er að fara í tökur á mynd sem heitir Dýrið, alla vega gengur hún undir því nafni núna. Þetta er mynd eftir Valdimar Jóhannsson en þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Hann skrifaði handritið ásamt Sjón en í henni leika Noomi Rapace, Hilmir Snær og Björn Hlynur. Ég leik þarna lítið en mikilvægt hlutverk,“ segir hann og býst hann við að hún verði frumsýnd á næsta ári.
Ingvar þarf svo að leggja land undir fót með myndina Hvítur, hvítur dagur í farteskinu og kynna hana fyrir heimsbyggðinni. Eftir áramót stígur svo Ingvar á svið í verkinu Útsendingin í Þjóðleikhúsinu. Það er mikið annríki en Ingvar segist þó finna tíma til að slaka á.
„Ég eyði miklum tíma með Eddu og börnunum, þó að þau séu stálpuð. Ég fer í ræktina, æfi mig á harmonikkuna mína og fer út í garð að vinna garðverkin. Svo sinni ég foreldrum mínum og les fyrir þau nánast á hverjum degi. Ég fer líka mikið í leikhús, bíó og á tónleika.“ Hvað værir þú að gera í dag ef þú hefðir ekki verið lokkaður út á leiklistarbrautina?
„Ég væri mögulega í tónlist því hún hefur alltaf fylgt mér, bæði söngur og hljóðfæraleikur. Nú ef ekki það hefði ég farið í guðfræði. Mér finnst svo skemmtilegt við lífið hvað það er dularfullt og eitt af því dularfulla er þessi spurning um Guð eða eitthvað sem er handan skynfæranna okkar. Ég er samt sáttur við mitt hlutskipti sem leikari. En ég hefði getað orðið séra Ingvar.“
Ítarlegt viðtal er við Ingvar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.