Samsköttun er og verður áfram í skattkerfinu, auk þess sem heimild til samnýtingar skattþrepa, sem innleidd var í skattkerfið 2010, verður óbreytt í nýju skattkerfi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Páli Ásgeiri Guðmundssyni, aðstoðarmanni fjármálaráðherra, vegna ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um nýtt fjármálafrumvarp í viðtali við mbl.is.
„Það er því rangt hjá Sigmundi Davíð að verið sé að hækka skatta um 3 ma.kr. Breytingar á skattkerfinu munu þvert á móti lækka skatta allra tekjutíunda og skila 21 ma.kr. í auknar ráðstöfunartekjur á ári til heimilianna.“
Þá sé það einnig rangt hjá Sigmundi Davíð að það að hækka persónuafslátt hefði skilað meiri ávinningi til tekjulægstu hópanna. „Sú aðferð hefði þvert á móti skilað mun minni ávinningi til lágtekjuhópa og hefði auk þess skilað sömu krónutölu upp allan tekjustigann.“