Hvatningin átti stóran þátt í ákvörðuninni

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er búinn að fá góða hvatningu víða og tel sjálfur að reynsla mín og þekking geti nýst í þessu mikilvæga starfi fyrir flokkinn,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun að bjóða sig fram til embættis ritara flokksins.

Jón tók til máls á fyrsta vikulega fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í morgun og kynnti þar viðstöddum að hann gæfi kost á sér til embættis ritara á flokkráðsfundi sjálfstæðismanna 14. september.

Hvatningin hreyfði við honum

Hann segir að sú hvatning sem hann hefur fengið, bæði úr sínu kjördæmi og víða að af landinu, hafi átt stóran þátt í því að hann svaraði því kalli og ákvað að gefa kost á sér.

„Ég mat það þannig að reynsla mín og þekking, af bæði innra starfi flokksins eftir langa þátttöku í þessu starfi og þekking á mismunandi áherslum landshlutanna og höfuðborgarsvæðisins, hafandi verið samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, gæti nýst vel í þessu embætti,“ útskýrir Jón.

Enginn annar gefið kost á sér enn sem komið er

Hann segist ekki ætla í kosningaherferð fyrir flokkráðsfundinn sem haldinn verður eftir slétta viku heldur muni einungis reyna að setja sig í samband við fólk sem mætir á fundi sjálfstæðismanna og þar muni hann kynna sig og sitt framboð.

Jón er sá fyrsti sem lýsir því yfir opinberlega að hann ætli að gefa kost á sér til embættis ritara en Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, greindi frá því í samtali við mbl.is að hann ætlaði að íhuga málið yfir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert