Stefnt er að því að sundhópurinn Marglytturnar hefji boðsund sitt yfir Ermarsundið í nótt ef veðurskilyrði samkvæmt spám halda.
Fyrirhugað er að fara frá Dover klukkan fjögur í nótt að enskum tíma.
„Marglytturnar hafa beðið undanfarna daga eftir hagstæðum skilyrðum til að leggjast til sunds en auk veðurs þurfa sjávarföll að vera hagstæð. Ermarsundið er oft kallað Everest sjósundsfólks en það er 34 km leið á milli borgarinnar Dover í Englandi og höfðans Cap Gris Nez í Frakklandi. Vegna strauma er vegalengdin sem synt er oft helmingi lengri. Áætlað er að boðsundið taki 16-18 tíma og mun hver og ein sundkona synda í eina klukkustund í senn í fyrirfram ákveðinni röð og því eru líkur á því að hver Marglytta syndi tvisvar til þrisvar,“ segir í tilkynningu frá hópnum.
Þá segir að lítill fiskibátur fylgi þeim alla leið. Hópurinn hafi aðstöðu um borð og þar verði einnig eftirlitsmaður sem tryggi að sundið, þ.á m. skiptingar, fari rétt fram.
„Þó að það sé komið grænt ljós hjá okkur þá geta hlutirnir samt breyst þar sem enn eru þó nokkrir tímar í að sundið hefjist. Veðurskilyrðin hafa ekki verið góð og við erum í raun að fá grænt ljós í skásta glugganum á þessum dögum sem við eigum sundrétt. Það er margt sem þarf að ganga upp: vindur, straumar, tími flóðs og fjöru og ölduhæð þarf að vera innan vissra marka. Við erum vongóðar og undirbúum okkur líkt og við séum að fara af stað í nótt,“ er haft eftir Brynhildi Ólafsdóttur í Marglyttuhópnum.
Markmiðið með boðsundinu er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar en Marglyttur eru að safna áheitum fyrir umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn.
„Blái herinn hefur unnið ótrúlegt starf á síðustu 24 árum og við Marglyttur erum stoltar af því að geta stutt þeirra frábæra starf á þennan hátt. Við höfum verið að synda hér daglega og finnum hvað sjórinn er mikið mengaður, enda á lífríkið hér í Ermarsundinu mjög undir högg að sækja,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir í Marglyttuhópnum í tilkynningunni.
Marglyttur hvetja landsmenn til að styðja við boðsundið yfir Ermarsundið, þannig að hægt verði að safna fjárhæð sem getur skipt máli fyrir Bláa herinn. Eimskip er aðalstyrktaraðili Marglytta og vegna myndarlegrar aðkomu fyrirtækisins renna öll áheit óskipt til Bláa hersins. Hægt er að styðja Marglyttur í AUR-appinu í síma 788-9966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-640972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ingþórsdóttur). Allar upplýsingar um boðsundið eru á facebooksíðu Marglytta.