Margra grasa kennir í fjárlagafrumvarpinu

Það kennir margra grasa í fjárlagafrumvarpi næsta árs eins og …
Það kennir margra grasa í fjárlagafrumvarpi næsta árs eins og meðfylgjandi skýringarmynd sýnir. mbl.is

Það kennir margra grasa í fjárlagafrumvarpi næsta árs eins og skýringarmyndin hér ofar á síðunni sýnir. Efst t.v. kemur fram hvernig tekjur ríkissjóðs munu skiptast þegar frumvarpið er orðið að lögum. Er virðisaukaskattur stærsta tekjulindin, 32%, og síðan tekjuskattur einstaklinga, 25%. Samanlagt eru virðisaukaskattur, tekjuskattar á einstaklinga, tryggingargjöld og skattar á fyrirtæki nærri 80% allra tekna ríkissjóðs. Efst til hægri eru útgjaldaliðirnir sýndir. Kemur fram að 60% tekna er varið til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Síðan eru sýndir nokkrir valdir útgjaldaliðir. Kemur m.a. fram að 8,5 milljarðar munu fara til framkvæmda við nýjan Landspítala og 2,2 milljarðar eru eyrnamerktir vegna brýnna læknisaðgerða erlendis. Framlög til fjárfestinga á næsta ári nema 78,4 milljörðum sem er talsverð hækkun frá fjárlögum þessa árs þar sem framlögin eru 67,2 milljarðar króna.

Í fjárlagafrumvarpinu er greint frá því að nýtt lágtekjuþrep komi í gagnið á næsta ári fyrir laun upp að 325 þúsund krónum. Mun það bera 35,04% skatt fyrsta árið.

Á næsta ári á að verja 220 milljónum króna til að fjölga kennaranemum, en framlög til háskólastigs minnka um 9% í heild vegna skertra framlaga til LÍN.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða heildarskuldir ríkissjóðs 820 milljarðar króna og lækka um 72 milljarða á milli ára.

Meðal stórra tekjulinda ríkissjóðs eru áfengisgjald, sem skilar 20,2 milljörðum, og tóbaksgjald, sem skilar 5,9 milljörðum króna eins og sjá má á myndinni neðst til vinstri. Til fæðingarorlofs verður varið 15,5 milljörðum króna á næsta ári. Loks má nefna að tekjur ríkisins af útgáfu vegabréfa munu væntanlega nema 510 milljónum króna.

Nánar um frumvarpið á vef fjármálaráðuneytisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert