Hæsta tré sem nokkru sinni hefur verið mælt hér á landi

Björn Traustason með mælitæki við sitkagrenið hávaxna.
Björn Traustason með mælitæki við sitkagrenið hávaxna. Ljósmynd/Ólafur Stefán Arnarsson

Sitkagreni í skógarlundi við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri mældist tæplega 28,7 metrar á hæð í vikunni. Það er hæsta tré sem mælt hefur verið í íslenskum skógi og er ekki talið að annað tré íslenskt hafi komist svo nálægt 30 metrunum, samkvæmt upplýsingum Björns Traustasonar, sérfræðings hjá Skógræktinni.

Í mælingum Björns og Ólafs Stefáns Arnarssonar, sem báðir eru starfsmenn Skógræktarinnar á Mógilsá, á þriðjudag reyndist meðaltal tíu mælinga á trénu vera 28,65 metrar. Það hefur því hækkað um tæpa 30 sentímetra frá mælingum fyrir ári og bætt jafnt og þétt við sig síðan það var útnefnt hæsta tré landsins fyrir nokkrum árum.

Góðar aðstæður á Klaustri

Ekki er auðvelt að mæla tréð þar sem það stendur í lundinum en með endurteknum þríhyrningamælingum segir Björn að hæðin ætti að vera nokkuð nákvæm. „Tréð virtist vera við góða heilsu og er trúlega hæsta tré á Íslandi í milljónir ára. Við getum alveg sagt að þetta sé hæsta tré á Íslandi í nútíma. Birkið sem lengi hefur verið ríkjandi hér á landi hefur aldrei náð þessari hæð. Á Kirkjubæjarklaustri eru sérstaklega góðar aðstæður til að sitkagreni geti vaxið; mikil úrkoma, almennt gott veðurfar og ágætt skjól,“ segir Björn.

Sitkagrenið var gróðursett á Klaustri fyrir réttum 70 árum og hefur þrifist vel eins og mörg önnur tré í lundinum. Það er enn í fullum vexti og er talið að þetta sígræna barrtré geti orðið nokkur hundrað ára hér á landi. Á vef Skógræktarinnar segir að sitkagreni sé ein af uppistöðutegundum í íslenskri skógrækt og muni ná að minnsta kosti 40 metra hæð hérlendis, en erlendis verður tegundin mun hávaxnari.

Við hliðina á sitkagreninu hávaxna er annað tré, litlu lægra en mun gildvaxnara en methafinn. Í frétt á heimasíðu Skógræktarinnar fyrir ári kom fram að það tré hefði verið 27,36 metrar á hæð og 64,5 cm að þvermáli í brjósthæð í ágúst í fyrra. Lífmassi ofanjarðar hefði verið tæplega 1,4 tonn og neðanjarðar 347 kíló. Kolefnisinnihald hefði verið um 868 kg og áætluð binding CO2 frá upphafi um 3,2 tonn. 

Einn stærsti einkaskógurinn

Á upplýsingaskilti kemur fram að upphaf skógarins á Klaustri megi rekja til þess að bændur á Kirkjubæjarklaustri girtu af brekkurnar ofan við bæinn. Á sama tíma stóð yfir barátta við sandfok austan við Kirkjubæjarklaustur sem var farið að ógna byggð á svæðinu. Árið 1945 voru gróðursettar þar 60 þúsund birkiplöntur af heimafólki á Klaustri og fólki úr sveitinni. Áttu hjónin Helgi Lárusson og Sigurlaug Helgadóttir stóran þátt í því að til skógarins var stofnað. Á næstu árum var bætt inn sitkagreni-, lerki- og furutrjám og var skógurinn einn stærsti einkaskógur á landinu.

Árið 1966 var gerður samningur við Skógræktina um viðhald girðinga og umsjón með skóginum. Hefur Skógræktin á síðustu árum bætt aðgengi að skóginum auk þess að bæta við sjaldgæfum trjátegundum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert