Fjöldi fólks er nú samankominn á Lækjartorgi til þess að sýna samstöðu gegn nasisma og lætur rigningu ekki á sig fá.
Að sögn ljósmyndara mbl.is voru þar um 200 manns þegar hann renndi við rétt rúmlega þrjú, en samstaðan stendur til klukkan fimm.
Í viðburðalýsingu segir að sést hafi til lítils hóps nýnasista undanfarna daga sem meðal annars hafi reynt að breiða út hatursboðskap sinn á Lækjartorgi. „Þetta er nokkuð sem við sættum okkur ekki við. Nasismi, í hvaða formi sem hann birtist, er og verður aldrei velkominn á Íslandi og því köllum við eftir að fólk sýni andstöðu sína.“
Lækjartorg varð fyrir valinu fyrir samstöðufundinn til þess að endurheimta það frá þeim sem reyni að halda uppi gildum rasisma, hinseginfóbíu, útlendingahaturs og annarra úreltra fordóma gegn jaðarsettum hópum.
„Við stöndum saman gegn því að nýnasistar eða aðrir skoðanabræður þeirra geti gert tilraunir til að auka vægi sitt í íslensku samfélagi og sýnum þeim því að hingað eru þessar hugsjónir ekki komnar til að vera!“
Ræðumenn á samstöðufundinum eru þau Dóra Björt Guðjónsdóttir, Guðmunda Smári, Katrín Alda Ámundadóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sema Erla, Viima Lampinen og Þórhildur Elísabet Þórsdóttir.