„Þarna hefur hvorki verið talað við kóng né prest heldur bara vaðið áfram,“ segir Ásgeir Kr. Ólafsson, sumarhúseigandi í Landsveit.
Ásgeir situr í samráðsnefnd íbúa og landeigenda í nágrenni jarðanna Leynis 2 og 3 í Landsveit þar sem hafin er uppbygging ferðaþjónustu. Íbúarnir hafa lagt fram kvörtun vegna framkvæmdanna til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Mannvirkjastofnunar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Blaðið hefur að undanförnu fjallað ítarlega um uppbygginguna á Leyni 2 og 3, bæði um óánægju íbúa og landeigenda í nágrenninu sem og áform eigenda. Malasíumaðurinn Loo Eng Wah, sem stýrir uppbyggingunni, sagði í viðtali við blaðið í vikunni að hann vildi gott samstarf við íbúa og áformin væru ekki eins umfangsmikil og þeir virtust telja.
Í kvörtun íbúanna til heilbrigðiseftirlitsins er gerð athugasemd við 15 hjólhýsi sem hafi verið sett upp á svæðinu sem séu öll fasttengd við fráveitu og aðveitu hitaveitu og kaldavatnsveitu. Segir að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna þessara framkvæmda. Samkvæmt reglugerð séu öll mannvirki sem séu fasttengd slíkum veitum háð byggingarleyfi. Sama gildi um plastkúluhús sem rísa eigi á svæðinu.