„Aldrei upplifað annað eins sumar“

Charles Josef Goemans fyrir miðri mynd með sjálfboðaliðunum.
Charles Josef Goemans fyrir miðri mynd með sjálfboðaliðunum. Ljósmynd/Aðsend

„Sumarið hefur verið stórkostlegt og það besta frá því við byrjuðum á verkefninu. Ég hef aldrei upplifað annað eins sumar hér á landi og það var eiginlega of gott til að vera satt. Við höfum náð að koma miklu í verk,“ segir Charles Josef Goemans sem fer fyrir hópi sjálfboðaliða sem hafa unnið í Þórsmörk í allt sumar að leggja göngustíga, laga merkingar og fleira tilfallandi. 

Verkefnið er á vegum Skógræktarinnar og hófst árið 2012 og nefnist the Trailteam. Charles hefur verið í forsvari fyrir verkefnið frá upphafi. Á hverju sumri taka um 70 sjálfboðaliðar þátt í verkefninu og skila af sér um rúmlega 200 vikna vinnu. Sjálfboðaliðarnir fá ekki greitt fyrir vinnu sínu eins og nafnið gefur til kynna en eru í fullu fæði á meðan. Þeir skaffa sjálfir allan útbúnað fyrir sig eins og hlífðarföt og tjald sem þeir gista í í Langadal í Þórsmörk. Rúsínan í pylsuendanum er svo fjögurra daga fjallganga um svæðið. Hópnum er skutlað inn í Landmannalaugar og svo gengur hann til baka og endar niðri í Þórsmörk. 

Göngustígarnir verða mun betri eftir að sjálfboðliðarnir hafa lagt alúð …
Göngustígarnir verða mun betri eftir að sjálfboðliðarnir hafa lagt alúð sína í verkið. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfboðaliðarnir sækja um á vefnum trailteam.is og þurfa að vera 20 ára eða eldri. Eitt helsta inntökuskilyrðið er að hafa kjark til að búa í tjaldi í íslenskum veðuraðstæðum allan tímann. Í lýsingunni er tekið skýrt fram að veðráttan á Íslandi sé rysjótt og því þurfi að vera vel útbúinn til að takast á við verkefnið.  Ýmist er hægt að velja að vera tvær eða sex vikur í senn á tveimur tímabilum. Ávallt hafa fleiri sótt um en fengið hafa og koma einstaklingarnir frá öllum heimshornum. Reynsla af göngustígagerð er kostur sem og reynsla af því að dvelja langdvölum á fjöllum í tjaldi. 

„Það er eiginlega mikilvægara að geta verið í þessum aðstæðum en endilega að kunna eitthvað fyrir sér í göngustígagerð, þótt það sé vissulega alltaf gott. Það er alltaf hægt að kenna réttu handtökin,“ segir Charles. Um þriðjungur þeirra sem taka þátt í verkefninu hefur gert það áður, slíkar eru vinsældirnar. Þegar hver hópur er valinn saman er reynt að hafa hann sem fjölbreytilegastan, kynjahlutföllin eru jöfn og aldur og reynsla fólks ólík.     

Hann segir vinnuna hafa gengið vel í sumar líkt og öll árin á undan. Í ár hafi þetta gengið einstaklega vel því veðurguðirnir léku við Þórsmerkurbúana. „Fólkið er líka fullt af eldmóði og vill bæta umhverfi sitt og njóta náttúrunnar,“ segir Charles og bætir við: „Þegar fólk hugsar þannig er ekkert drama í gangi“ aðspurður hvernig hópnum gangi að vinna saman.

Sjálfboðaliðar smíða trétröppur.
Sjálfboðaliðar smíða trétröppur. Ljósmynd/Aðsend

Í sumar einbeitti hópurinn sér að því að laga göngustíga á Valahnjúk og í Réttarfelli í Goðalandi í Básum auk annarra staða. Báðar þessar gönguleiðir eru vinsælar hjá ferðamönnum. Hiti og þurrt veður í sumar varð til þess að stígarnir urðu þurrir og sleipir en sjálfboðaliðarnir reyndu hvað þeir gátu að bjarga því.     

Sú nýbreytni var í sumar að sjálfboðaliðarnir plöntuðu trjám í Tumastaðaskógi í Fljótshlíð til að kolefnisjafna ferðalag sitt til landsins. Hann segir að því verði haldið áfram í framtíðinni. 

Ljósmynd/Aðsend

„Það er að kynnast fólkinu og vinna með því,“ segir hann spurður hvað standi upp úr. Hann segir magnað að fylgjast með dugnaðinum og hvernig fólk frá ólíkum menningarheimum kynnist. Það gefur honum mikið og honum þykir alltaf jafn gaman að halda utan um starfið og taka á móti fólki. Í ofanálag þykir honum Þórsmörk ákaflega fallegur staður. 

Charles, sem er frá austurhluta Englands, kom til landsins sjálfur í gegnum sambærileg bresk sjálfboðaliðasamtök. Hann ílengdist hér og fór að vinna fyrir Skógræktina og var ráðinn í þetta verkefni sem hann hefur sinnt frá stofnun. Á hverju ári dvelur hann hér frá því í apríl fram í október og líkar vel. Fyrir nokkrum árum hafði hann vetursetu hér en hyggst fara á flakk um heiminn í haust. 

Sjálfboðaliðar í verkefninu Trailteam planta trjám og hlúa að landinu …
Sjálfboðaliðar í verkefninu Trailteam planta trjám og hlúa að landinu okkar. Ljósmynd/Aðsend

Öll ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu hafa verið dugleg að gefa vinnu sína í verkefnið með því að þjónusta sjálfboðaliðana. Til að mynda hafa rútufyrirtæki flutt þá inn í Þórsmörk. 

Sjálfboðaliðar í verkefninu Trailteam að búa til trétröppur í Langidal …
Sjálfboðaliðar í verkefninu Trailteam að búa til trétröppur í Langidal í Þórsmörk. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka