„Við erum búnar að heyra í skipstjóranum og við erum ekki að fara í kvöld eða nótt. Næsti gluggi sem lítur mjög vel út er aðfaranótt þriðjudagsins,“ segir Halldóra Gyða Matthíasdóttir Marglytta í samtali við mbl.is.
Sundhópurinn Marglytturnar er staddur í Dover í Englandi þar sem hann bíður færis á að hefja sund yfir Ermarsundið til Cap Gris Nez í Frakklandi.
Vegna óhagstæðra vinda og mikils öldugangs í Ermarsundinu næsta sólarhringinn komast þær ekki af stað, en þær hafa glugga til 10. september og verður þá síðasti séns að fyrir þær að synda af stað á þriðjudag.
„Það lítur mjög vel út og er búið að líta lengi vel út, svo við erum ekkert hræddar um að það breytist neitt. Við erum mjög brattar á því að við séum að fara aðfaranótt þriðjudagsins,“ segir Halldóra Gyða.
„Við höldum bara áfram að æfa okkur, höldum okkur ferskum með því að ganga. Við göngum hérna um ströndina, einhverjar fóru í golf, einhverjar að skoða bæinn. Við erum bara jákvæðar.“
Marglyttur hvetja landsmenn til að styðja við boðsundið yfir Ermarsundið þannig að hægt verði að safna fjárhæð sem getur skipt máli fyrir Bláa herinn. Eimskip er aðalstyrktaraðili Marglytta og vegna myndarlegrar aðkomu fyrirtækisins renna öll áheit óskipt til Bláa hersins. Hægt er að styðja Marglyttur í AUR-appinu í síma 788-9966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ingþórsdóttur).