„Ein fyrir allar og allar fyrir eina

Þrátt fyrir biðina eru Marglytturnar hressar og kátar.
Þrátt fyrir biðina eru Marglytturnar hressar og kátar. Ljósmynd/Aðsend

„Við eigum að heyra aftur í skipstjórunum klukkan fjögur í dag að staðartíma og þá er næsti líklegi gluggi en þeir segja samt að það séu bara 50 prósent líkur á að við getum farið þá,“ segir Halldóra Gyða Matthíasdóttir í Marglyttuhópnum í samtali við mbl.is.

Til stóð að Marglytturnar myndu synda boðsund yfir Ermarsundið í nótt, frá Dover í Englandi að höfðanum Cap Gris Nez í Frakklandi, en vegna óhagstæðra og sterkra vinda ákváðu skipstjórar eftirlitsbáts Marglytta að fresta sundinu.

Treystum skipstjórunum

„Við sögðum alltaf að við treystum skipstjórunum og við verðum bara að hlusta á þá. Þeir eru með áratuga reynslu í þessu og þekkja miðin, öldurnar og spárnar svo við treystum þeim,“ segir Halldóra.

Marglytturnar mættu til Dover á mánudaginn síðasta og áttu fyrsta sundrétt aðfaranótt miðvikudags en síðan þá hefur verið bræla.

„Stemningin er búin að vera mjög góð alla vikuna. Það er búið að vera hvasst en fallegt veður, hlýtt og sól, en mikill öldugangur,“ bætir hún við.

„Við erum glaðar og við erum tilbúnar“

Fyrsti möguleiki Marglytta síðan á miðvikudag var að fara í nótt og voru þær búnar að gera allt tilbúið, kaupa í matinn og pakka í töskur þegar sundinu var frestað.

Boðsundið fer þannig fram að hver þeirra syndir þrisvar sinnum, einn klukkutíma í senn, eftir ákveðnum reglum og ákveðnu ferli.

Marglytturnar mættu til Dover á mánudaginn síðasta og áttu fyrsta …
Marglytturnar mættu til Dover á mánudaginn síðasta og áttu fyrsta sundrétt aðfaranótt miðvikudags en síðan þá hefur verið bræla. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ein í einu í klukkutíma og svo kemur næsta. Það er ákveðin röð og sú röð verður að haldast allan tímann. Þess vegna erum við ein fyrir allar og allar fyrir eina,“ útskýrir Halldóra og heldur áfram:

„Það þýðir ekkert fyrir mig eða einhvern að segja að hann sé slappur og biðja einhvern að fara fyrir sig. Þetta er bara keðja og við verðum að fylgja reglum til að fá sundið staðfest.“

Eftirlitsaðilar koma til með að fylgjast með boðsundinu og sjá til þess að Marglytturnar fylgi reglum. „En við erum glaðar og við erum tilbúnar,“ bætir Halldóra við að lokum.

Fyrir gott málefni

Mar­glytt­ur hvetja lands­menn til að styðja við boðsundið yfir Ermar­sundið þannig að hægt verði að safna fjár­hæð sem get­ur skipt máli fyr­ir Bláa her­inn. Eim­skip er aðalstyrkt­araðili Mar­glytta og vegna mynd­ar­legr­ar aðkomu fyr­ir­tæk­is­ins renna öll áheit óskipt til Bláa hers­ins. Hægt er að styðja Mar­glytt­ur í AUR-app­inu í síma 788-9966 og með því að leggja inn á reikn­ing 0537-14-650972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ingþórs­dótt­ur). 

Allar upplýsingar eru á facebooksíðu Marglytta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert