Hótar að færa sæstrengsverkefni til Þýskalands

Breski fjárfestirinn Edmund Truell er ósáttur með hæg vinnubrögð breskra …
Breski fjárfestirinn Edmund Truell er ósáttur með hæg vinnubrögð breskra stjórnvalda. mbl.is/Safn

Breski fjárfestirinn Edmund Truell, einn af forsvarsmönnum sæstrengsverkefnisins Atlantic SuperConnection, hefur hótað að hætta við byggingu raflínuverksmiðju í norðausturhluta Englands og færa framkvæmdina til Þýskalands fái hann ekki stuðning frá breskum stjórnvöldum.

Raflínuverksmiðjan er einn angi verkefnisins sem snýst um að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands. Bygging verksmiðjunnar í Teesside í Englandi átti að skapa um 800 störf og kosta um 200 milljónir punda eða rúmlega 31 milljarð íslenskra króna.

Um þetta er fjallað í the Sunday Times og fleiri breskum fjölmiðlum.

Fer fram á skuldbindingu til 35 ára

Sæstrengur Atlantic SuperConnection myndi leiða rafmagn, sem framleitt yrði með jarðhita- og vatnsfallsvirkjunum á Íslandi, til Bretlands. Framkvæmdin veltur hins vegar á því hvort bresk stjórnvöld lýsi formlega yfir stuðningi við verkefnið. Truell vill að ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar skuldbindi stjórnvöld til að greiða ákveðið lágmarksverð í 35 ár hið minnsta fyrir rafmagnið.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og sagt er að nú vanti aðallega að breska viðskiptaráðuneytið skilgreini Atlantic SuperConnection sem erlendan raforkuframleiðanda svo félagið geti selt raforku í Bretlandi á niðurgreiddu verði.

Undrandi yfir hryggleysi ráðherrans

Truell er sagður hafa skrifað viðskiptaráðherra Bretlands, Greg Clark, bréf í desember þar sem hann hótar því að færa verksmiðjuna til Þýskaland fái verkefnið ekki stuðning frá stjórnvöldum. Var bréfið ritað eftir að undirráðherra í breska viðskiptaráðuneytinu neitaði að styðja verkefnið.

„Við erum, í sannleika sagt, forviða yfir því að þú, eftir að hafa persónulega veitt verkefninu stuðning, hafir leyft undirráðherra þínum að hafna verkefninu og grafa þannig undan valdi þínu. Stjórnvöld og Íhaldsflokkurinn þurfa að sýna að þau valdi verki sínu, vera samkvæm sjálfum sér og standa við orð sín,“ er haft eftir Truell í bréfinu sem hann sendi Clark.

Þrýst er á Greg Clark, viðskiptaráðherra Bretlands, að bresk stjórnvöld …
Þrýst er á Greg Clark, viðskiptaráðherra Bretlands, að bresk stjórnvöld gefi verkefninu grænt ljós. AFP

Aukin bjartsýni eftir að Boris Johnson tók við völdum

Truell sagði, í skriflegu svari til mbl.is í lok ágúst, að fjármögnun verkefnisins væri til reiðu og að hann vonaðist til þess að virkt samtal gæti hafist milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands um áframhaldandi þróun verkefnisins eftir að Bretland hefur gengið út úr Evrópusambandinu. Fyrirhuguð útganga, sem á að fara fram 31. október, er nú í uppnámi vegna pólitísks óstöðugleika í Bretlandi.

Aukinnar bjartsýni gætir nú í herbúðum Atlantic SuperConnection eftir að ríkisstjórn Boris Johnsons tók við völdum. Tru­ell er gam­all sam­starfsmaður John­sons og var ráðgjafi hans varðandi eft­ir­launa­mál þegar John­son var borg­ar­stjóri London.

Katrín hefur lofað að Alþingi hafi lokaorðið

Í umræðum á Alþingi um þriðja orkupakka Evrópusambandsins í ágúst sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, að sæstrengur yrði ekki lagður hingað til lands nema með samþykki Alþingis.

Andstæðingar innleiðingar þriðja orkupakkans hafa hins vegar áhyggjur af því að íslensk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir að sæstrengur verði lagður hingað til lands án þess að samningsbrotamál verði höfðað gegn ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert