Sérútbúið fundarherbergi fyrir þjóðaröryggisráð

Verðlaunatillaga arkitektastofunnar Kurt og pí um viðbyggingu við stjórnarráðið í …
Verðlaunatillaga arkitektastofunnar Kurt og pí um viðbyggingu við stjórnarráðið í Lækjargötu.

Mikil áhersla er lögð á öryggismál við hönnun og útfærslu nýrrar viðbyggingar við stjórnarráðshúsið í Lækjargötu. Húsnæðinu verður skipt upp í mismunandi öryggissvæði og verður hæsta stig öryggis í sérstöku fundarherbergi fyrir þjóðaröryggisráð sem verður í kjallara hússins.

Í samkeppnislýsingu vegna byggingarinnar kemur fram að líta þurfi á öryggismál í heildarsamhengi. „Lóð og umhverfi nýbyggingar þarf að útfæra þannig að sem minnst hætta sé á að bílar og farartæki geti keyrt inn á lóðina og á byggingar. Æskilegt er að bygging sé eins langt frá almennri umferð og hægt er til að tryggja öryggissvæði fyrir framan byggingar. Möguleiki þarf að vera á að loka innkeyrslu í bílgeymslu með öruggum hætti (ákeyrsluvörn) sem næst götu,“ segir í samkeppnislýsingunni.

„Fundarherbergi þjóðaröryggisráðs (Ö3) verði (gluggalaust) í kjallara, með öruggri tengingu við flóttaleið,“ segir ennfremur. Gætt verður að því að möguleikar verði á óháðum flóttaleiðum vegna bruna og annarra ógna, til dæmis ytri sprenginga. Þá verður öryggisgler sett í allar hliðar byggingarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu eru áform um áðurnefnt fundarherbergi óbreytt en endanleg útfærsla allra rýma byggingarinnar muni þó ráðast við fullnaðarhönnun hennar. Stefnt er að því að útboð vegna verklegra framkvæmda geti átt sér stað vorið 2021 og að byggingarframkvæmdir hefjist haustið 2021 og verði lokið á vordögum 2023.

Hefur fundað sjö sinnum

Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og skal vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Ráðinu er enn fremur ætlað að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi. Forsætisráðherra er formaður ráðsins en í því eiga einnig sæti utanríkis- og dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar auk tveggja þingmanna.

Þjóðaröryggisráð hefur ekki fasta fundartíma en lagt er upp með að það hittist 4-5 sinnum á ári. Ráðið hefur alls fundað sjö sinnum frá því það var stofnað, samkvæmt upplýsingum frá Þórunni J. Hafstein, ritara þjóðaröryggisráðs. Fundir þjóðaröryggisráðs hafa farið fram í Safnahúsinu, á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og í sérstöku öryggisrými fyrir fundahöld og örugg samskipti í húsakynnum utanríkisráðuneytisins. Þá hefur ráðið fundað í fundaraðstöðu á stjórnarráðsreitnum sem hlotið hefur sérstaka öryggisvottun ríkislögreglustjóra vegna fundarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka