Vegna óhagstæðra og sterkra vinda ákvað skipstjóri eftirlitsbáts sundhópsins Marglyttanna að fresta sundi þeirra yfir Ermarsund.
Fyrirhugað var að nýta veðurglugga í nótt en veðurskilyrði þurfa að vera góð og margt þarf að ganga upp líkt og hagstæðir vindar, straumar, ölduhæð og tími flóðs og fjöru, að því er hópurinn segir í tilkynningu.
„Það er búið að bæta í vind miðað við spána í gærkvöldi, vindurinn er um 11-12 metrar á sekúndu í of langan tíma og því er þessi veðurgluggi því miður búinn að lokast, nú er næsti gluggi seinni partinn í dag, þó með sama fyrirvara, veðrið getur alltaf breyst,“ er haft eftir Peter Reed, skipstjóri Rowen, í tilkynningunni.
Markmiðið með boðsundinu er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar en Marglyttur eru að safna áheitum fyrir umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn.