Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú fíkniefnamál sem upp kom þegar erlendur karlmaður reyndi að smygla tæpum 700 grömmum af kókaíni til landsins.
Að sögn lögreglu var maðurinn að koma frá Madrid á Spáni 1. september og viðurkenndi hann fyrir tollgæslu í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar að hann væri með fíkniefni innvortis.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn og færði á lögreglustöð. Þar skilaði hann af sér samtals 70 pakkningum af fíkniefninu, að því er lögreglan greinir frá í tilkynningu.
Hann sætir nú gæsluvarðhaldi og rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum.