„Þetta er frábær tilfinning en líka alveg gríðarleg sjóveiki,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir, ein marglyttanna sex sem syntu boðsund yfir Ermarsund í dag. Þær lögðu af stað frá Englandi snemma í morgun og komu að landi í Frakklandi 15 tímum síðar.
Auk Brynhildar syntu þær Sigurlaug María Jónsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Halldóra Gyða Matthíasdóttir, Birna Bragadóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir. Gréta Ingþórsdóttir og Soffía Sigurgeirsdóttir sáu um skipulagningu.
Marglytturnar voru á leiðinni aftur til Englands þegar blaðamaður náði tali af þeim á ellefta tímanum í kvöld en Brynhildur útskýrði að sundfólk mætti bara fara rétt í land í Frakklandi og síðan yrði að sigla til baka.
Boðsundið fór þannig fram að hver þeirra synti í klukkustund í einu í röð sem ákveðin er fyrir fram. Röðinni má ekkert breyta, þótt einhver finni fyrir slappleika eða sjóveiki.
„Þessi klukkutími er mjög lengi að líða,“ segir Brynhildur og hlær.
Hún segir að aðstæður þegar lagt var af stað í morgun hafi verið ágætar. Síðan um miðbik sundsins hafi sjórinn orðið rennisléttur. „Það versnaði síðan svakalega og það var bókstaflega haugasjór síðasta spölinn. Við urðum allar sjóveikar og fjórar voru ælandi.“
Brynhildur segir að það þurfi að ná stjórn á hausnum áður en lagt er af stað með æluna bókstaflega í kokinu. „Maður er kannski sjóveikur að synda. Í svona ofboðslegum öldum gleypir maður mikinn sjó og veltist til. Það þurfti bara að setja undir sig hausinn og koma sér áfram,“ segir Brynhildur og heldur áfram:
„Þetta er svo skrítið. Þetta er svo mikil bilun, alveg virkilega andstyggilegt á meðan á því stendur en samt svo gaman.“
Tilgangur sundsins er að vekja athygli á plastmengun og áhrifum hennar á lífríki sjávar, en sundkonurnar safna áheitum fyrir umhverfisverndunarsamtökin Bláa herinn. Brynhildur bendir á að söfnunin haldi áfram næstu daga en getur ekki svarað til um næstu landvinninga hópsins.
„Það er búið að tala um að þessi hópur þurfi að halda áfram og gera eitthvað frekar, en ekkert hefur verið ákveðið. Við náðum að drekka svona hálfan sopa af kampavíni þegar við náðum landi og erum búnar á því.“
Brynhildur segir marglytturnar ótrúlega þakklátar fyrir góðar kveðjur sem þeim hafi borist undanfarna daga. „Ég hef oft heyrt íþróttamenn segja þetta en aldrei lent í því sjálf en skil núna hvað þetta skiptir miklu máli. Þetta stappar í mann stálinu og það er engin leið að hætta eða gefast upp þegar maður fær svona stuðning.“