Ágætur gangur er í framkvæmdum við nýja stólalyftu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli á Akureyri.
Unnið er í allt að rúmlega 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli og eru aðstæður til að koma steypubílum upp að efstu möstrum erfiðar vegna þess hversu blautt er. Notuð er jarðýta til að draga bílana upp og halda í þá á leiðinni niður.
Nýja stólalyftan liggur úr um 500 metra hæð yfir sjávarmáli og upp í rúmlega 1.000 metra. Reisa þarf 16 möstur og undirstöður. Er vinnan við að slá upp fyrir undirstöðum og steypa langt komin og verið er að reisa þriðja mastrið.
Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segir að aðstæður mættu vera betri. Hann telur þó að framkvæmdum ljúki fyrir veturinn en það fari eitthvað eftir veðri og vindum. Fyrirhugað er að opna nýju lyftuna eftir áramót, áður en skíðavertíðin nær hámarki.