Marglytturnar, sex íslenskar sundkonur, luku við 34 kílómetra boðsund yfir Ermarsundið nú á tíunda tímanum. Hópurinn lagði af stað klukkan sex í morgun frá höfninni í Dover á Englandi og var Sigurlaug María Jónsdóttir fyrsta marglyttan sem stakk sér til sunds.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé lauk sundinu og er hópurinn kominn til hafnar í Cap Gris Nez í Frakklandi. Sundið tók fimmtán klukkutíma og hver og ein marglytta synti um klukkustund í einu í fyrirfram ákveðinni röð. Fyrst lagði Sigurlaug María Jónsdóttir af stað, síðan tók Sigrún Þ. Geirsdóttir við og þar á eftir synti Halldóra Gyða Matthíasdóttir. Næst á eftir henni synti Birna Bragadóttir, síðan tók Þórey Vilhjálmsdóttir við og Brynhildur Ólafsdóttir var síðust í röðinni. Þannig var jafnframt önnur sundlotan og þrjár fyrstu sundkonurnar í röðinni syntu þrisvar sinnum.
Sundið gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig og byrjaði vel í þokkalega lygnum sjó og hlýju veðri. Um miðbik sundsins og þær komnar yfir í landhelgi Frakklands tók að bæta í vind og syntu þær lengi í miklum öldugangi. Á sjöunda tímanum í kvöld tók róðurinn að þyngjast með auknum öldugangi og straumum. Sundkonurnar urðu nær allar sjóveikar sem hægði á sundinu og gerði veruna um borð í bátnum erfiðari.
Sigrún Þ. Geirsdóttir, þaulreynd Ermarsundsdrottning sem sjá má á sundi í myndskeiðinu hér að ofan, rann og datt þegar hún kom um borð í bátinn eftir sitt annað sund.
Þá missti Þórey Vilhjálmsdóttir jafnvægið og rak höfuðið í þegar hún var nýkomin um borð eftir sitt annað sund, en þá var veltingurinn orðinn mikill að sögn Soffíu Sigurgeirsdóttur, skipuleggjanda hópsins.
Sjórinn var mjög gárugur og straumóttur undir lok sunds þegar marglytturnar voru komnar að svæði sem nefnist „grafreitur draumanna“, síðustu kílómetrunum að strönd Frakklands þar sem sjávarföllin hafa oftar en ekki reynst sundmönnum of sterk og borið þá frá landi. Marglytturnar voru staðráðnar í að klára sundið og það gekk eftir.
Ferlið hefur verið langt og strangt síðustu tvö ár og tilgangur sundsins hefur aldrei gleymst, það er að sporna gegn plastmengun í hafi. Markmiðið með sundferðinni er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins en ástand lífríkis í Ermarsundinu er mjög slæmt.
„Efst í huga okkar Marglyttanna eftir sundið er þakklæti fyir að hafa náð að synda yfir Ermarsundið og láta þannig drauma okkar rætast. Við erum ánægðar að hafa hreyft við umræðunni um alvarlegar afleiðingar plastmengunar í sjó og sérstaklega glaðar að safna styrkjum fyrir Bláa herinn,“ segja Marglytturnar Silla Maja, Halldóra, Birna, Brynhildur, Sigrún og Þórey.
Marglyttur eru að safna áheitum fyrir Bláa herinn í gegnum AUR-appið í síma 788-9966, einnig er hægt að leggja inn fjárhæð á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219.