Marglytturnar, hópur kvenna sem ætlar að synda boðsund yfir Ermarsundið, lagði af stað frá höfninni í Dover núna klukkan sex í morgun eins og áætlað var.
Hópurinn hafði áður þurft að fresta sundi sínu um helgina sökum óhagstæðra vinda og mikils öldugangs. Nú eru veðurskilyrði hins vegar eins ákjósanleg og þau gerast en dagurinn í dag var jafnframt síðasta tækifæri þeirra til að hefja sundið.
„Spáin virðist ætla að standast, líka Frakklandsmegin, þannig að þær eru þá líklegar til að ná landi og stemningin í hópnum er alveg gríðarlega góð,“ sagði Soffía Sigurgeirsdóttir, skipuleggjandi Marglyttanna, í samtali við mbl.is nú í morgun.
„Þær eru allar tilbúnar að fara í sjóinn,“ bætir hún við. Sigurlaug María Jónsdóttir var fyrsta Marglyttan sem stakk sér til sunds og gengur sundið vel hjá henni. „Það er ofboðslega fallegt veður og það er mikil ánægja hjá hópnum að hafa lagt af stað núna í morgun af því að núna ná þær að synda í björtu í allan dag.“
Veðurskilyrði fyrir Ermarsund hafa verið óvenjuslæm í sumar og margir sundmenn þurft að bíða lengi og jafnvel ekki komist af stað. Marglytturnar hafa verið við æfingar í Dover síðan 2. september og eru með sundrétt frá 3. til 10. september.
Þrátt fyrir góð veðurskilyrði er vegalengdin sem synt er oft lengri sökum strauma, en áætlað er að sundið muni taka Marglytturnar sex um 16-18 tíma. Hver og ein Marglytta mun synda tvisvar til þrisvar í fyrirfram ákveðinni röð. Boðsundið þarf að fylgja settum reglum til þess að fást staðfest sem fullgilt sund af the English Channel Association.
Marglyttur vilja sporna gegn plastmengun í hafi og eru að safna áheitum fyrir Bláa herinn. Markmiðið með sundferðinni er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar og mikilvægi þess að vernda auðlindir hafsins en ástand lífríkis í Ermarsundinu er mjög slæmt.
Hægt er að heita á Bláa herinn í gegnum AUR-appið í síma 788-9966, einnig er hægt að leggja inn fjárhæð á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219. Hægt er að fylgjast með sundi Marglyttanna á Facebook.