Nýja leigan sniðin að borgarbúum

Þrír ungir frumkvöðlar standa að nýrri deilihjólaleigu í borginni en þeir veðja á að með betri dreifingu á stöðvum leigunnar náist betri nýting á hjólunum, auk þess sem leigan sé lægri en hjá leigunni sem WOW stóð að. Í myndskeiðinu er rætt við þá Eyþór Mána Stefánsson og Kormák Atla Unnþórsson en báðir eru um tvítugt.

Fyrirtækið sem strákarnir stofnuðu vegna verkefnisins heitir Framúrskarandi deilihjólaleigan og sigraði í samkeppni sem Reykjavíkurborg stóð að í sumar þar sem óskað var eftir lausn á sviðinu. Strákarnir gerðu samkomulag við alþjóðlegt deilihjólafyrirtæki sem nefnist Donkey Republik og leigja kerfi af fyrirtækinu sem er sérstaklega umsvifamikið á Norðurlöndum.

Fjögur til 10 hjól eru á hverri af þeirri 41 stöð sem hjólin verða á og allar uppsettar í lok vikunnar og notendur geta fundið laus hjól með appi Donkey Republik. Hægt verður að fá hjól í áskrift fyrir 3.500 kr. á mánuði og ársáskrift fyrir 30 þús. kr. Stöðvarnar, sem verða í hverfum 101, 105 og 107, eru venjulegir hjólabogar sem gagnast öðru hjólreiðafólki og hjólin eru venjuleg þriggja gíra götuhjól að hollenskri fyrirmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert