Baldur Arnarson
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir það skýrast næsta vor hvenær fyrsti áfangi borgarlínu verði tekinn í notkun. Hann verði annars vegar frá miðborg til Ártúnshöfða og hins vegar frá miðborg og í gegnum Vatnsmýrina til Hamraborgar í Kópavogi.
„Þegar þróunaráætlun borgarlínu kemur sjáum við nákvæmlega skref fyrir skref hvernig framkvæmdin verður. Hvað varðar fjármögnun er þetta einn og sami áfanginn.“ Fyrsti áfanginn kallar m.a. á brýr yfir Sæbraut og Fossvog. Áformað er að efna til samkeppni um Fossvogsbrú í haust en brúarsmíðin hefur ekki verið tímasett.
Sigurborg Ósk segir mögulegt að fyrsti áfangi borgarlínu verði tekinn í notkun í nokkrum skrefum. Jafnframt séu breytingar á leiðakerfi Strætó í undirbúningi. Markmiðið sé að hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu, sem býr innan 400 metra frá strætóbiðstöð með 7-10 mínútna tíðni hækki úr 26% í 62%.
Breytingarnar verði unnar samhliða innleiðingu borgarlínu. Hins vegar kunni tíðnin að vera komin á sumum leiðum á undan borgarlínunni. Áformað er að þétta byggð við borgarlínuna, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.