Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, segir mikilvægt að varpa ljósi á samskipti fréttamanna og heimildarmanna sem fóru fram í tengslum við umfjöllun fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri 2017.
RÚV var send stefna í febrúar og fór fyrirtaka málsins fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. „Það sem er mikilvægt er að leiða í ljós er hvernig þessi samskipti voru milli fréttamanna og heimildarmanna og hvert upplýsingarnar fóru og hvort það hafi þá ekki verið einhver mistúlkun í gangi milli aðila,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður Zhang, í samtali við mbl.is.
Stefnan er óbreytt, en þar er farið er fram á sex milljónir í miskabætur, 1,2 milljónir í bætur vegna birtingar og að ýmis ummæli verði dæmd dauð og ómerk.
Hann segir jafnframt að málið verði sótt af festu, en áður hafði formleg kröfugerð verið lögð fram á hendur RÚV, sem hafnaði kröfunni. Ákærðu í málinu eru Sunna Valgerðardóttir fréttamaður, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Ríkisútvarpið. Lögmaður stefndu lagði ekki fram gögn við fyrirtöku málsins í dag.
Sjanghæ-málið vakti mikla athygli og var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum landsins fyrstu dagana í september 2017. Í fyrstu frétt ruv.is af málinu 30. ágúst 2017 sagði meðal annars: „Eigandi veitingastaðar á Akureyri er grunaður um vinnumansal. Grunur leikur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum.“ Ummælin eru meðal þeirra sem stefnendur gera ósk um að verði dæmd dauð og ómerk.
Stéttarfélaginu Eflingu-Iðju bárust ábendingar um aðstæður starfsfólks á veitingastaðnum og rætt var við fulltrúa stéttarfélagsins í kvöldfréttum RÚV 30. ágúst, fyrir utan veitingastaðinn. Stéttarfélagið komst að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar um kjör starfsmanna sem fram kæmu í gögnum sem aflað var við vinnustaðaeftirlitið stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum. Grunur um mansal reyndist því ekki á rökum reistum, samkvæmt athugun stéttarfélagsins.
Í stefnunni á hendur RÚV segir að ljóst sé að starfsmenn Eflingar-Iðju hafi aldrei staðfest annað en að ábending hafi komið fram að og grunur léki á að eitthvert misferli væri í gangi. Aldrei hafi verið fullyrt af hálfu starfsmanna stéttarfélagsins að grunur væri um refsiverða háttsemi líkt og ítrekað væri staðhæft í fréttaflutningi stefndu. Ekki hafi því verið tilefni til að aðhafast frekar í málinu enda hafi ábendingin ekki átt við rök að styðjast.
Næsta skref er að sögn Sævars að leggja fram lista yfir þau vitni sem verða beðin að sækja málið, meðal annars starfsmenn Eflingar-Iðju. Í framhaldi af því verður ákveðið hvenær aðalmeðferð málsins fer fram. Sævar segir að vitnin verði þó nokkur. „Þetta verður aflaust einhver fjöldi, það er aðilar sem hafa komið að málinu frá upphafi,“ segir Sævar.