Verði af sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar eystri og Djúpavogs mun sveitarstjórn nýs sveitarfélags fela svokölluðum heimastjórnum í gömlu sveitarfélögunum hluta af valdi sínu.
Kveðið er á um þessa tilfærslu á valdi í tilraunaákvæði í sveitarstjórnarlögunum og heimilt er að nýta það í tvö kjörtímabil. Komi til þessarar sameiningar verður því beitt í fyrsta sinn.
Heimastjórnirnar myndu þá fara með ákvörðunarvald varðandi nærþjónustu á viðkomandi svæðum, m.a. hvað varðar deiliskipulag, veita ýmsar umsagnir og um friðlýsingar.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, segir að með þessu fyrirkomulagi sé leitast við að mæta gagnrýni sem komið hafi upp við sameiningar. Þá sé markmiðið að öll stjórnsýsla verði skilvirkari með þessu fyrirkomulagi.