„Við erum mikið neyslusamfélag“

Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins.
Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í upphafi þessa árs gerði Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins, breytingar á rekstrinum sem varð til þess að endursöluhlutfallið jókst um 17% frá áramótum til ágústmánaðar. Það er nú komið í 40% og stefnt er að því að ná 50%. Ruth hefur starfað sem rekstrarstjóri í ár en hefur verið í verslunarrekstri í áratugi, lengst af í fatageiranum. 

Góði hirðirinn er nytjamarkaður Sorpu og markmiðið er að koma hlutum í endurnot og gefa ágóðann til styrktar- og líknarfélaga sem er gert einu sinni á ári. 

„Þetta er viðamikill rekstur,“ segir hún. Daglega koma 10-12 tonn af vörum í 3-4 gámum. Starfsmenn Góða hirðisins, sem eru 24 talsins, vinna hörðum höndum að því að koma hlutunum fyrir, flokka og verðleggja fyrir hádegi áður en búðin er opnuð kl. 12 og lokað kl. 18. Daglega myndast röð viðskiptavina klukkan hálftólf fyrir utan búðina. 

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á rekstrinum undanfarið, helst ber að nefna að ekki er lengur tekið við stórum rafmagnstækjum eins og þvottavélum og ísskápum. „Reynslan er sú að þetta tók mikið pláss, í stóru hlutfalli voru tækin biluð og þetta seldist varla. Þetta er vara sem við seldum ódýrt á 4-5 þúsund krónur en fólk þurfti oft að leigja sér flutningabíl undir vöruna. Þá er hart að borga flutning undir það sem er dýrara en varan. Það var alveg sama hvað við lækkuðum verðið, þetta sat eftir,“ segir Ruth.  

Önnur breyting sem var gerð er að plássið var endurskipulagt og betur nýtt undir vörurnar, þ.e.a.s. gerðar voru breytingar í framsetningu í búðinni. Auk þess hefur verið reynt að auka gæði varanna sem boðnar eru til sölu. 

Sófarnir í Góða hirðinum eru af ýmsum stærðum og gerðum.
Sófarnir í Góða hirðinum eru af ýmsum stærðum og gerðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsverður kostnaður fylgir versluninni þó að ekki sé greitt fyrir innihald nytjagáma Sorpu. Ruth bendir á að mikill kostnaður sé fólginn í flutningunum með gámum í Góða hirðinn. „Við greiðum fyrir leigu á gámunum og flutning á þeim hingað, það er hár kostnaður. Það þarf líka að greiða starfsfólki laun, greiða húsaleigu og rekstrarkostnað af húsinu. Við höfum verið mjög gagnrýnin á allan þennan kostnað og rýnt hann. Við höfum verið að reyna að beisla hann,“ segir hún. Það hefur gengið vel og er búið að ná honum að stórum hluta niður. 

Í fyrra varð lítilsháttar tap á rekstrinum. Þrátt fyrir það voru gefnar níu milljónir til góðgerðarmála sem var fjármagnað úr takmörkuðum varasjóði. „Okkar markmið í ár er að geta staðið undir okkar styrkveitingum sjálf og bæt um betur frá því í fyrra. Það lítur vel út,“ segir hún. 

Meðalverð seldra hluta er 470 krónur 

Verðlagið í Góða hirðinum hefur verið gagnrýnt og bent á að notaðir hlutir úr IKEA hafi verið dýrari en nýir úr búðinni. „Við gerum okkar besta þegar kemur að verðlagningu. Við höfum fengið ábendingar og þá höfum við kynnt okkur málið og brugðist við því. Engar róttækar breytingar hafa verið gerðar á verðlagningunni. Meðalverð á sófa er 3.500 krónur, meðalverð á smávöru 250-300 krónur, bækur kosta frá 100 til 200 krónum. Við erum með sambærilegt verð og aðrir nytjamarkaðir,“ segir Ruth. Meðaltalsverð seldra hluta í Góða hirðinum er 470 kr. Í verslunina koma einstakir hlutir sem eru með sögulegt gildi og orðnir safngripir og því er eðlilegt að þeir séu dýrari

Þessi gagnrýni að við séum að vísa frá okkur hlutum er flókin. Við fáum oft inn til okkar hluti sem eru orðnir gamlir og lélegir, hluti sem fólk keypti fyrir hrun. Síðustu ár hefur fólk haft meiri tök á að endurnýja hjá sér því það hefur meiri kaupmátt. Þá erum við að fá til okkar 10 til 15 ára gamla hluti sem eru margir hverjir orðnir slitnir. Við erum líka með viðskiptavini sem eru kröfuharðir. Þeir vilja ekki slitna, rifna og brotna hluti, sama á hvaða verði þeir eru,“ segir hún. Að því sögðu er mælst til þess að fólk setji heillega hluti inn í gámana og búi vel um þá eins og glervöru og annað brothætt svo það laskist ekki á leiðinni. 

Smávörurnar eru ótal margar og ýmsar gersemar gætu leynst þarna.
Smávörurnar eru ótal margar og ýmsar gersemar gætu leynst þarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við reiðum okkur á viðskiptavini sem setja í gámana. Við náum aldrei að handstýra öllu sem fer í þá. Maður veit aldrei hvað kemur í gámunum. Stundum koma gámar með 12 borðum í einu eða jafnvel er þriðjungur þeirra bækur,“ segir hún. Hún segir dæmi um að ef mikið hleðst upp í versluninni í sama vöruflokki sé brugðið á það ráð að setja vörurnar á tilboð í nokkra daga svo þessir hlutir fari ekki í förgun. Starfsmenn EVST leiðbeina fólki við nytjagámana. Það eru jú alltaf ákveðnar vörur sem ekki seljast í Góða hirðinum. Einnig eru starfsmenn frá okkur út á endurvinnslustöðunum um helgar.

Raftæki ódýr og þeim skipt út

Á ári seljast yfir 100 þúsund bækur. „Núna eru öll heimili að losa sig við bækur því þetta er komið mikið á rafrænt form. Eðlilega getum við ekki tekið við öllu en klárlega viljum við halda bókinni lifandi,“ segir hún. 

Gríðarlegt magn af raftækjum öðrum en hvítvöru (ísskápar, eldavélar, frystikistur, uppþvottavélar, þvottavélar, þurrkarar) kemur inn í Góða hirðinn. Stór hluti þeirra er sendur til Fjölsmiðjunnar sem fær sendingu einu sinni í viku þar sem starfsmenn fara yfir þá eins og kostur er.

„Fólk er mikið að skipta út hjá sér raftækjum. Við reynum að yfirfara þau eins og við getum en oft er hvorki tími né mannskapur í það. Við höfum lækkað verð á raftækjum því við tökum ekki ábyrgð á hlutum sem til okkar berast. Það er engin leið fyrir okkur að taka ábyrgð á vöru því við þekkjum ekki upprunann né sögu þeirra,“ segir hún. Hún bendir á að raftæki séu orðin ódýr í dag og því freistar fólk þess að skipta þeim út. 

„Þurfum alltaf að eiga það nýjasta“ 

„Ég hef verið í verslunargeiranum í mörg ár. Við erum mikið neyslusamfélag. Við þurfum alltaf að eiga það nýjasta. Síðastliðin tvö ár hefur verið aukinn kaupmáttur og mikil endurnýjun á heimilunum. Það er mikið um flutninga því fasteignageirinn hefur verið í mikilli veltu. Í flutningum losar fólk sig við heillega hluti og grisjar. Þetta hjálpast allt að. Við þurfum líka að horfa inn á við og spyrja hvers vegna við erum að losa okkur við heillega hluti. Við ættum að nota og nýta hlutina okkar betur eða kaupa notað. Það þarf ekki allt að vera nýtt,“ segir hún.  

Daglega koma um 10 - 12 tonn af vörum í …
Daglega koma um 10 - 12 tonn af vörum í Góða hirðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í þessu samhengi bendir hún á ótal sölusíður á netinu þar sem hægt er að kaupa allt milli himins og jarðar notað. „Þetta segir okkur að það er mikið magn í umferð. Við þurfum að róa okkur aðeins í þessum kaupum,“ segir hún. 

„Magnið kom mér rosalega á óvart. Ég skil stundum ekki af hverju fólk er að losa sig við heillega hluti sem þjóna enn tilgangi sínum,“ segir hún spurð hvort það hafi breytt sýn hennar að taka við rekstrinum á Góða hirðinum.  

Kúnnahópurinn er breiður og ákveðinn kjarni mætir reglulega í búðina. Unga kynslóðin er dugleg að láta sjá sig og hún segist sjá stóran hluta hennar markvisst lifa þessum lífsstíl, bæði í hagkvæmni að endurnýta og ekki að bæta álagi á umhverfið okkar, að sögn Ruthar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert