Áhrif á öryggi sjúklinga

Formaður hjúkrunarráðs óttast afleiðingar aðgerða á starfsemi Landspítalans.
Formaður hjúkrunarráðs óttast afleiðingar aðgerða á starfsemi Landspítalans. Árni Sæberg

„Allar ákvarðanir sem teknar eru hafa áhrif á öryggi sjúklinga. Vitað er og viðurkennt að mönnun hjúkrunarfræðinga á spítölum hefur áhrif á öryggi sjúklinga. Góð mönnun dregur úr dánarlíkum.“

Þetta segir Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans, í Morgunblaðinu í dag. Forstjóri spítalans vinnur að aðgerðum til hagræðingar vegna fyrirsjáanlegs hallareksturs á árinu. Þær hafa ekki verið kynntar nema að litlu leyti.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er fjárhagsstaða spítalans ekki eins slæm og hún sýndist vera. Eftir sé að taka tillit til millifærslna úr safnliðum ráðuneytisins til spítalans og viðbótargreiðslna frá Sjúkratryggingum. Einnig sé hugsanleg leiðrétting vegna vanáætlaðra fjárveitinga vegna kjarasamninga. Það getur að mati ráðuneytisins dregið úr hallanum um tvo milljarða. Eigi að síður sé útlit fyrir rekstrarhalla.

Marta Jónsdóttir bendir á að mönnun spítalans hafi ekki verið góð í mörg ár. Spítalinn hafi farið í ákveðnar aðgerðir fyrir tveimur árum til að reyna að bregðast við neyðarástandi vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Aldrei hafi komið nein fjárveiting út á þær aðgerðir. Nú fái spítalinn þau skilaboð í miðjum kjaraviðræðum að skera niður þessar aukagreiðslur. Hún óttast afleiðingar þess.

„Hlutverk ríkisvaldsins er að hafa þjóðarsjúkrahúsið í lagi og það verður ekki í lagi nema með hjúkrunarfræðingum,“ segir Marta í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert