„Erfiðast er að stíga fyrsta skrefið. Maður byrjar smátt eins og t.d. hættir að kaupa plaströr og notar fjölnota poka í stað fyrir einnota og smám saman fjölgar þessum skrefum. Mér finnst eiginlega allt orðið auðvelt í dag því maður er sífellt að endurhugsa hlutina,“ segir Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir sem deilir reynslu sinni af umhverfisvænni lífsstíl sem fjölskyldan hefur reynt að tileinka sér síðastliðið ár. Hún heldur erindi á morgun kl. 17 í Amtbókasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni: Hvað getur ein fjölskylda gert? í tilefni árvekniátaksins plastlauss september.
Ár er liðið frá því þessi fjögurra manna fjölskylda á Akureyri fikraði sig í átt að umhverfisvænni lífsstíl. „Við fengum sjokk þegar við horfðum á þættina Hvað höfum við gert? og settum meiri þunga í þetta verkefni. Við ákváðum að taka meiri ábyrgð á okkar eigin neyslu en ekki láta aðra um að leysa vandamálið sem ruslið okkar skapar. Þegar við losum af heimilinu sjáum við ekki meira af þeim en þessir hlutir hverfa ekki. Alls staðar í heiminum eru til hlutir sem hægt er að nýta og nota betur,“ segir Dagfríður.
Vendipunkturinn, sjónvarpsþættirnir Hvað höfum við gert?, er íslensk heimildarþáttaröð í tíu hlutum um loftslagsmál og áhrif og afleiðingar mannsins á lífríki og samfélög og var sýnd á Ríkissjónvarpinu síðasta vetur.
Fjölskylda Dagfríðar samanstendur af henni og eiginmanni hennar Óla Steinari Sólmundarsyni og tveimur börnum. Þau ákváðu að deila reynslu sinni af þessari vegferð til að auðvelda öðrum að gera slíkt hið sama á samfélagsmiðlinum Instagram undir notendanafninu: Hvað getur ein fjölskylda. Dagfríður segir að fyrirmyndir í þessum málum hafi ekki verið margar þegar þau fóru af stað en þeim hafi fjölgað núna.
Breytingarnar sem fjölskyldan hefur gert að undanförnu eru fjölbreyttar. Þær snúa helst að samgöngumálum, mataræði og almennri neyslu.
„Það skiptir miklu máli að minnka matarsóun til að minnka kolefnisfótsporið. Haga innkaupum þannig að maturinn nýtist sem best. Við höfðum aldrei pælt mikið í mat. Maður er vanafastur og það var erfitt að breyta því. Við höfum dregið úr neyslu dýraafurða og borðum ekki mikið rautt kjöt og höfum reynt að fækka kjötmáltíðum og velja t.d. frekar kjúkling. Við erum að prófa okkur áfram í grænmetisréttum og það er mun auðveldara núna en fyrir bara ári,“ segir hún og vísar til fjölbreyttari kosta í þessum efnum.
Eitt af því sem reyndist auðvelt að breyta voru hreinsiefni heimilisins. Óumhverfisvænum hreinsiefnum var skipt smám saman út fyrir önnur umhverfisvæn. „Við vorum með margar tegundir af alls konar efnum sem var óþarfi,“ segir hún og nefnir að hægt sé að komast langt í heimilisþrifum með því að nota edik, matarsóda, salt og sítrusávexti auk ilmkjarnaolía.
Samgöngumálin hafa einnig breyst hjá fjölskyldunni en erfiðast hefur reynst að breyta þeim. Þau reyna að nýta bílferðirnar betur og eru ekki alltaf að skjótast. „Það er líka oftast hægt að fara í strætó. Hér á Akureyri er ókeypis í strætó og töluvert margir sem nýta sér þann samgöngumáta sem er frábært,“ segir hún og bætir við að maðurinn hennar sé duglegur að hjóla í vinnuna.
„Ég vil ekki hugsa þetta sem átak eða hafa boð og bönn. Þú ert ekki annaðhvort umhverfisvænn eða ekki. Þetta snýst um að reyna að velja betri valkosti og gera þetta á jákvæðan hátt, ekki umturna öllu einn, tveir og þrír,“ segir hún.
„Ég lít svo á að það sem kemur inn á heimilið og er einnota þurfi ekki að vera það því það er hægt að nota hlutinn aftur og aftur. Það sem kemur inn á heimlin eru verðmæti því það kostaði orku og auðlindir að búa til hlutinn. Okkur ber skylda til að nota hann alveg þangað til ekki er hægt að nota hann lengur,“ segir hún.